Skoðun

Ég brenn fyrir þessu starfi

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir skrifar

Fyrir stuttu var mér boðið að eiga samtal við kennaranema í Háskóla Íslands. Tilefnið voru vangaveltur og spurningar sem brunnu á kennaranemum um störf og starfsskilyrði í grunnskóla. Þrátt fyrir stutta heimsókn þá upplifði ég og fann að þau höfðu þennan brennandi neista sem og væntingar um að hafa áhrif á skólastarf framtíðar. Mikilvægt er að kennaranámið nesti þau sem best til kennslu en hlutverk okkar kennara á vettvangi er ekki síður mikilvægt við að búa þeim þau starfsskilyrði sem nauðsynleg eru til að þrífast í starfi.

Samfélagslegar væntingar til kennara eru miklar og til allrar hamingju snýst umræðan um málefni grunnskóla iðulega um það hvernig við getum gert enn betur, hvernig menntun íslenskra barna geti verið framúrskarandi að gæðum. Fólk sem starfar í stjórnmálum ætlast einnig til mikils af kennurum og það er vel. Þá umræðu verðum við öll að setja í samhengi við starfsskilyrði, starfsgleði og þær sjálfsögðu kröfur sem allar stéttir gera, að búa við viðunandi starfskjör. Ég trúi því að kennarar, samfélagið og stjórnmálafólk geti fylkt sér að baki eftirfarandi markmiðum, annars vegar að gera kennarastarfið að heillandi kosti fyrir ungt fólk og hins vegar að búa öllum kennurum þau skilyrði að þeir vaxi og dafni í starfi. Þessum markmiðum hef ég unnið að og vil gera áfram.

Heimsókn mín til kennaranema sannaði enn og aftur að þeir töfrar sem felast í kennslu kveikja hjá okkur löngun til þess að hafa jákvæð áhrif á samfélagið í gegnum þetta mikilvæga starf. Félag grunnskólakennara þarf forystu sem gætir hagsmuna kennara á öllum sviðum, hvort sem um er að ræða kjör, starfsaðstæður, nýliðun, kennaramenntun, starfsgleði og möguleika til starfsþróunar. Ég hef langa reynslu, þekkingu og yfirsýn á löggjöf, stjórnsýslu og aðstæðum kennara í ólíkum landshlutum. Þess vegna gef ég kost á mér til að starfa áfram sem formaður Félags grunnskólakennara.

Höfundur sækist eftir áframhaldandi umboði félagsmanna Félags grunnskólakennara til formennsku fyrir félagið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×