Skoðun

Ráðningarstyrkur Reykjavíkurborgar

Þórður Gunnarsson skrifar

Eftir að heimsfaraldurinn læsti klóm sínum í heimsbyggðina gripu stjórnvöld um allan heim til efnahagsaðgerða án fordæma. Sem við var að búast reyndust ólík úrræði misvel. Ein vinnumarkaðsaðgerða sem virkaði afskaplega vel voru ráðningarstyrkir Vinnumálastofnunar.

Með þeim gengu atvinnuleysisbætur upp í launakostnað vegna nýráðins starfsmanns sem hafði verið lengur en sex mánuði á atvinnuleysisskrá. Ráðningarstyrkur Vinnumálastofnunar var í boði til allt að sex mánaða.

Þúsundir einstaklinga þiggja fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg í hverjum mánuði. Þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna gera það af ýmsum ástæðum, en oftar en ekki vegna þess að réttur til atvinnuleysisbóta er útrunninn.

Upphæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar nemur rétt tæpum 218 þúsund krónum í mánuði. Vart þarf að taka fram að erfitt eða nánast ómögulegt er að draga fram lífið á slíkum kjörum. Besta leiðin til að aðstoða þann hóp sem þiggur fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er að hjálpa honum aftur á vinnumarkað.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vill líta til þeirrar vel heppnuðu efnahagsaðgerðar sem ráðningarstyrkir Vinnumálastofnunar reyndust. Ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst til valda í borginni í vor verður hafin vinna við að útfæra fjárhagsaðstoð til einstaklinga sem ráðningarstyrk. Atvinnurekendur gætu nýtt sér upphæð fjárhagsaðstoðar að fullu til sex mánaða.

Með þessu myndi borgin leggja sitt af mörkum til sterkara atvinnulífs. Mikilvægustu áhrif aðgerðarinnar væru hins vegar að aðstoða þá sem hafa verið lengi utan vinnumarkaðar til atvinnuþátttöku á ný.

Langvarandi atvinnuleysi er einn mesti samfélagslegi skaðvaldur sem fyrirfinnst og því mikilvægt að koma í veg fyrir að fólk festist í þeirri fátæktargildru sem fylgir atvinnuleysi.

Besta leiðin til þess er að virkja sem flesta til vinnu og Sjálfstæðisflokkurinn skilur það.

Höfundur er hagfræðingur og skipar 14. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 14. maí.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×