Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Njarð­vík 69-78 | Njarð­vík í kjör­stöðu eftir enn einn úti­sigurinn

Árni Jóhannsson skrifar
Njarðvík er einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum.
Njarðvík er einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum. Vísir/Bára Dröfn

Áfram halda liðin að vinna útileiki í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta. Njarðvík er nú í kjörstöðu eftir magnaðan sigur í Ólafssal í kvöld. Vinna þarf þrjá leiki til að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

Allir leikirnir í einvíginu hafa þróast á sama hátt og það varð engin breyting þar á í kvöld. Leikurinn var í algjöru jafnvægi lengst af og áttu liðin sín smáu áhlaup án þess þó að slíta sig í burtu frá hvoru öðru. Leikurinn byrjaði á ógnarhraða og var frábær. Þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum var staða 19-17 fyrir heimakonur og allt í járnum.

Það varð strax ljóst að Njarðvíkur konur ætluðu sér hvert einasta sóknarfrákast sem í boði var enda var það það sem hélt þeim inn í leiknum þegar Haukar virtust ætla að ná undirtökunum. Haukar komust fimm stigum yfir um miðjan annan leikhluta, sem þá var mesta forskotið í leiknum, en Njarðvíkingar áttu síðasta orðið í fyrri hálfleik. 

Þær tók hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og þó þær væru með talsvert lægri skotnýtingu þá komust þær yfir og enduðu fyrri hálfleik með fimm stiga forskot þegar gengið var til búningsklefa. Njarðvíkingar höfðu náð í 15 sóknarfráköst í hálfleik og skorað úr þeim 15 seinni tækifæris stig. Það telur heldur betur í leik sem þessum sem var harkalega leikinn.

Leikurinn náði aftur jafnvægi í upphafi síðari hálfleiks en Njarðvíkingar héldu í lítið forskot þangað til að Haukar náðu að skora sex stig í röð og minnka muninn niður í eitt stig 44-45 þegar þriðji leikhluti var hálfnaður. Heimakonur komust yfir einu stigi 50-49 þegar tvær mínútur voru eftir en Njarðvíkingar kveiktu heldur betur á sér og skoruðu 13 stig í röð til að klára leikhlutann í stöðunni 50-61. 

Njarðvíkingar áttu fyrstu körfu fjórða leikhluta en þá náðu heimakonur að komast á sitt áhlaup, ef áhlaup skildi kalla því vararleikurinn varð mjög ákafur hjá báðum liðum og hægðist heldur betur á stigaskorinu. Haukar náðu að skora 10 stig í röð en það tók sex mínútur að gera það og því var lítið eftir af leiknum þegar leikurinn rétti sig aftur við. Bæði lið komust í bónus og fór brakið fram að mestu á vítalínum liðanna. 

Næst komust Haukar þremur stigum frá Njarðvíkingum en að lokum sigldu Njarðvíkingar heim sigrinum og eru því búnar að stilla Haukum upp við vegginn fræga fyrir fimmtudaginn næsta.

Af hverju vann Njarðvík?

Klisjan um að vilja vinna meira var á lífi í kvöld. Ef við skoðum frákastabaráttuna þá unnu Njarðvíkingar hana nokkuð sannfærandi 46-31 og þar af tóku þær 21 sóknarfrákast á móti sex slíkum frá Haukum. Úr sóknarfráköstunum komu 21 stig og telur það í jöfnum leik. Þær náðu síðan góðum takti varnarlega þegar á reyndi og náðu að sigla sigrinum heim.

Hvað gekk illa?

Eins og komið hefur verið inn á þá gekk Haukum illa að taka fráköst í dag. Þeim gekk heldur ekki vel að komast á vítalínuna og gekk síðan illa að nýta vítin sem þær fengu þó. Af 13 vítaskotum skoruðu þær ekki nema úr sjö sem gerir 53% vítanýting á meðan Njarðvíkingar náðu í 34 víti og skoruðu úr 24 eða 70%.

Best á vellinum?

Ég segi best því það er ekki nauðsynlegt að tala um fleiri leikmenn en Aliyah Collier. Hún er óumdeildur leiðtogi Njarðvíkinga og skilaði hún stútfullri tölfræðiskýrslu í kvöld. Collier endaði leikinn með 38 stig, 20 fráköst, fjórar stoðsendginar, þrjá stolna bolta og þrjú varin skot. Það gerir 44 framlagsstig og var hún langbest á vellinum í kvöld.

Hvað næst?

Það er haldið í Ljónagryfjuna á fimmtudaginn næsta. Vinni Njarðvík þá verða þær Íslandsmeistarar í annað sinn og Haukar fara í sumarfrí án Íslandsmeistarabikarsins. Heimaliðið hefur ekki unnið hingað til í einvíginu þannig að lyktin af oddaleik er sterk en ekki yfirgnæfandi.

Bríet Sif: Við þurfum að taka þessi varnarfráköst

Bríet Sif Hinriksdóttir, leikmaður Hauka.Vísir/Hulda Margrét

Bríet Sif Hinriksdóttir, leikmaður Hauka, var ekki í vafa um hvað það var sem vantaði upp á hjá hennar liði í kvöld þegar Njarðvíkingar unnu þær í Ólafssal.

„Við þurfum að stíga út. Þær náðu í allt of mörgum sóknarfráköstum. Þær voru komnar með 15 sóknarfráköst í hálfleik. Það var það sem gerði útslagið í þessum leik. Við þurfum að stíga betur út og hætta að leyfa þeim að fá nokkra sénsa í hverri einustu sókn.“

Hún var þá spurð út í hvort það væri ekki viljinn sem skipti mestu máli í því að ná í sóknarfráköstin og afhverju hann væri ekki til staðar við tilefnið í kvödl..

„Það var örugglega eitthvað svoleiðis. Þær vildu þetta bara meira. Ef ég vissi afhverju viljinn var ekki til staðar þá værum við ekki í þessari stöðu.“

Bríet var þá spurð hvað hennar konur þyrftu að laga fyrir næsta leik.

„Við þurfum að taka þessi varnarfráköst. Þær mega ekki fá þessi sóknarfráköst. Það er bara það.“

Hún var spurð að lokum út í hennar hlutverk í einvíginu. Bríet hefur verið að byrja leikina og var hún spurð hvort það væri mikilvægara fyrir hana að byrja, koma sínu fingrafari á leikinn frá fyrstu mínútu eða seinna þegar byrjað er að rótera leikmönnum.

„Ég treysti bara því hvað þjálfurunum finnst best. Það skiptir ekki máli hvort ég byrji eða komi inn eftir fimm mínútur til að láta til mín taka. Ég treysti þeim algjörlega fyrir þessu.“


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira