Handbolti

Afturelding með nýjan markvörð til næstu þriggja ára

Sindri Sverrisson skrifar
Jovan Kukobat er nýr markvörður Aftureldingar.
Jovan Kukobat er nýr markvörður Aftureldingar. Afturelding

Markvörðurinn Jovan Kukobat hefur skrifað undir samning til næstu þriggja ára við handknattleiksdeild Aftureldingar.

Jovan, sem er 34 ára Serbi, er reynslumikill markvörður sem leikið hefur á Íslandi um árabil. Hann lék með Víkingi í vetur en var áður á Akureyri og lék þar með KA, Þór og Akureyri.

Samkvæmt tölfræðivef HB Statz var Jovan með 31,4% markvörslu í vetur. Hann varði að meðaltali 10,2 skot í leik og var hann þar í 7. sæti yfir markverði deildarinnar.

Andri Sigmarsson Scheving var aðalmarkvörður Aftureldingar í vetur en hann var hjá félaginu sem lánsmaður frá Haukum. Hann endaði í 9. sæti yfir markverði deildarinnar í vetur með 9,3 varin skot í leik og 30,6% markvörslu.

Tímabilinu er lokið hjá Aftureldingu sem endaði í 9. sæti Olís-deildarinnar og missti af sæti í úrslitakeppninni vegna innbyrðis úrslita í leikjum við Fram og Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×