Körfubolti

Oddaleikur Ármanns og ÍR sýndur í beinni útsendingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
ÍR-ingar tryggðu sér oddaleik síðastliðinn fimmtudag.
ÍR-ingar tryggðu sér oddaleik síðastliðinn fimmtudag. Karfan.is

Oddaleikur Ármanns og ÍR um laust sæti í Subway-deild kvenna sem fram fer í dag verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Ármann tryggði sér deildarmeistaratitilinn í 1. deild kvenna á dögunum en ÍR-ingar höfnuðu í öðru sæti.

Deildarmeistarar 1. deildar kvenna vinna sér ekki sæti beint upp í Subway-deildina, heldur er spiluð úrslitakeppni á milli efstu fjögurra liðanna til að skera úr um hvaða lið fær þetta eftirsótta sæti.

Ármann hafði þannig betur gegn Hamar/Þór sem hafnaði í fjórða sæti deildarinnar, 3-0, og ÍR-ingar unnu einvígið gegn KR 3-2 eftir æsispennandi seríu.

Ármann og ÍR hafa nú unnið sitthvora tvo leikina í úrslitaeinvíginu og því er komið að oddaleik. Leikurinn fer fram á heimavelli Ármanns, Kennaraháskólanum, og hefst útsending klukkan 15:50 á Stöð 2 Sport.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×