Íslenski boltinn

Besta-spáin 2022: Fer brúðarmærin loks upp að altarinu?

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sport spáir Breiðabliki 2. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson, Óskar Ófeigur Jónsson, Runólfur Trausti Þórhallsson og Sindri Sverrisson skrifa
Blikar fagna einu af þeim 55 deildarmörkum sem þeir skoruðu í fyrra. vísir/hafliði breiðfjörð

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sport spáir Breiðabliki 2. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Víkings og FH í dag, mánudaginn 18. apríl. Víkingar eiga titil að verja en þeir urðu Íslandsmeistarar í sjötta sinn í sögu félagsins í fyrra.

Íþróttadeild spáir Breiðablik 2. sæti Bestu deildarinnar í sumar og að liðið endi þar með á sama stað og það gerði síðasta sumar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er að fara inn í sitt þriðja tímabil með Breiðablik. Tímabilið í fyrra var að stærstum hluta frábært í Smáranum. Blikar spiluðu flottan fótbolta, skoruðu flest mörk og voru hársbreidd frá því að verða Íslandsmeistarar. Þá gerðu þeir það gott í Evrópudeildinni.

Breiðablik var duglegt á félagaskiptamarkaðnum og það á eftir að koma í ljós hvort liðið standi eftir betra eða verra en á síðasta tímabili. Blikar hafa fengið sterka leikmenn en skörð Árna Vilhjálmssonar og Alexanders Helga Sigurðarsonar, sem var einn besti leikmaður Breiðabliks á síðasta tímabili þótt fáir hafi talað um það, verða vandfyllt.

Blikar voru upp og ofan í vetur. Þeir stóðu sig með prýði á sterku móti í Portúgal en komust ekki upp úr sínum riðli í Lengjubikarnum. Það ber þó að taka það með í reikninginn að Breiðablik þurfti að spila alla sína fimm leiki á fimmtán dögum. En hvað genginu í vetur líður verða Blikar alltaf í meistarabaráttu í sumar.

Svona var síðasta sumar í tölum

 • Væntingarstuðullinn: Enduðu einu sæti neðar en þeim var spáð (1. sæti) í árlegri spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna fyrir mót.
 • -
 • Sumarið 2021 eftir mánuðum:
 • Apríl og maí: 56 prósent stiga í húsi (10 af 18)
 • Júní: 75 prósent stiga í húsi (9 af 12)
 • Júlí: 44 prósent stiga í húsi (4 af 9)
 • Ágúst: 100 prósent stiga í húsi (18 af 18)
 • September: 67 prósent stiga í húsi (6 af 9)
 • -
 • Besti dagur: 2. ágúst
 • Unnu 4-0 sigur á Víkingum í fyrsta leik ágústmánaðar og gáfu tóninn fyrir mánuð þar sem liðið náði á endanum í 18 stig af 18 mögulegum og var með markatöluna 20-2.
 • Versti dagur: 19. september
 • Töpuðu 1-0 á móti FH þar sem jafntefli hefði fært þeim lykilstöðu í lokaumferðinni en Blikar klikkuðu á vítaspyrnu í seinni hálfleiknum.
 • -
 • Tölfræðin
 • Árangur: 2. sæti (47 stig)
 • Sóknarleikur: 1. sæti (55 mörk skoruð)
 • Varnarleikur: 3. sæti (21 mark fengið á sig)
 • Árangur á heimavelli: 1. sæti (30 stig)
 • Árangur á útivelli: 5. sæti (17 stig)
 • Flestir sigurleikir í röð: 7 (2. ágúst til 11. september)
 • Flestir tapleikir í röð: 1 (Fimm sinnum)
 • Markahæsti leikmaður: Árni Vilhjálmsson 11
 • Flestar stoðsendingar: Jason Daði Svanþórsson, Kristinn Steindórsson 6
 • Þáttur í flestum mörkum: Árni Vilhjálmsson 18
 • Flest gul spjöld: Alexander Helgi Sigurðarson, Viktor Karl Einarsson 5

Liðið og lykilmenn

Líklegt byrjunarlið Breiðabliks í sumar.vísir/hjalti

Höskuldur Gunnlaugsson, bakvörður, miðju-, eða kantmaður (f. 1994): Fyrirliði Breiðabliks og blæðir grænu. Einn fjölhæfasti leikmaður deildarinnar og virðist geta leyst nær hvaða stöðu sem er á vellinum. Er gríðarlega mikilvægur hlekkur í öflugu liði Blika og var frábær á síðustu leiktíð, sama hvort það var á vængnum, miðjunni eða bakverði.

Viktor Karl Einarsson, miðjumaður (f. 1997): Snoppufríður miðjumaður sem er almennt talinn nægilega góður til að spila erlendis. Skrifaði nýverið undir nýjan langtíma samning við Breiðablik og virðist líða einkar vel á Kópavogsvelli. Þá helst í hlutverki „frjálsrar áttu“ í stórskemmtilegu leikkerfi Breiðabliks. Skoraði fimm mörk 2020, sex mörk 2021 og því má ætla að hann skori sjö mörk í sumar.

Kristinn Steindórsson, framherji (f. 1990): Klókur leikmaður sem virtist ekki eiga upp á pallborðið í efstu deild þegar hann sneri heim í uppeldisfélagið fyrir sumarið 2020. Hefur spilað eins og engill síðan þá og engu virðist skipta hvort honum sé stillt upp á vinstri kantinum, í holunni eða sem fremsta manni. Hefur undanfarin misseri minnt fólk á af hverju hann lék með öllum yngri landsliðum Íslands sem og þrívegis með A-landsliðinu.

Uppöldu Blikarnir Höskuldur Gunnlaugsson, Viktor Karl Einarsson og Kristinn Steindórsson ráða miklu um gengi liðsins í sumar.vísir/hulda margrét

Fylgist með: Anton Logi Lúðvíksson, miðjumaður (2003)

Enn einn miðjumaðurinn af færibandinu í Kópavogi. Fá lið virðast búa til fleiri áhugaverða miðjumenn og virðist Anton Logi ætla að feta í sömu spor. Það er mikil samkeppni um stöður á miðju vallarins hjá Blikum en það segir sitt að Anton Logi sé enn í leikmannahópi hópsins frekar en að vera farinn á láni líkt og hann gerði síðasta sumar þegar hann lék með Aftureldingu.

Markaðurinn

Breytingarnar á leikmannahópi Breiðabliks.vísir/hjalti

Blikar hafa ekki haft heppnina með sér í vetur því þeir fengu bæði Pétur Theódór Árnason frá Gróttu og Julio Camilo frá Venesúela til að styrkja sóknarleikinn en báðir slitu krossband í hné.

Omar Sowe hefur því bæst í hópinn, sem lánsmaður frá New York Red Bulls, og þar ætti að vera á ferðinni orkumikill sóknarmaður sem vonandi minnkar skaðann af brotthvarfi Árna Vilhjálmssonar og áður Thomasar Mikkelsen.

Alexander Helgi Sigurðarson kvaddi einnig af miðjunni en Blikar gerðu einni vel í að fá Ísak Snæ Þorvaldsson sem gæti orðið í stóru hlutverki, og Dagur Dan Þórhallsson ætti að henta leikstíl liðsins vel.

Bakvörðurinn Adam Örn Arnarson sneri svo heim í Kópavoginn úr atvinnumennsku og miðvörðurinn Mikkel Qvist er ágætur leikmaður sem þekkir deildina vel.

 • Hversu langt er síðan að Breiðablik ....
 • ... varð Íslandsmeistari: 12 ár (2010)
 • ... varð bikarmeistari: 13 ár (2009)
 • ... endaði á topp þrjú: 1 ár (2021)
 • ... féll úr deildinni: 21 ár (2001)
 • ... átti markakóng deildarinnar: 16 ár (Marel Baldvinsson 2006)
 • ... átti besta leikmann deildarinnar: 12 ár (Alfreð Finnbogason 2010)
 • ... átti efnilegasta leikmann deildarinnar: 4 ár (Willum Þór Willumsson 2018)

Að lokum …

Damir Muminovic er að hefja sitt níunda tímabil með Breiðabliki.vísir/Hulda Margrét

Eftir mikið flakk á milli deilda er Breiðablik löngu búið að festa sig í sessi sem eitt besta lið landsins. Blikar hafa hins vegar ekki unnið stóran titil síðan 2010 og þar á bæ eru menn orðnir óþreyjufullir eftir því að bæta í bikaraskápinn.

Á síðustu sjö tímabilum hefur Breiðablik fjórum sinnum endað í 2. sæti deildarinnar. Blikar hafa því verið í hlutverki brúðarmærinnar en bíða enn eftir að ganga sjálfir upp að altarinu. 

Það er samt enginn vafi á því að Breiðablik hefur allt til alls til að verða Íslandsmeistari í haust. Liðið er vel mannað og vel spilandi, þjálfarinn góður og umgjörðin í Smáranum fyrsta flokks. Nú er bara leikmannanna að taka stærsta og erfiðasta skrefið.


Tengdar fréttir


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.