Skoðun

Feil­skot við Nýló

Helgi Sæmundur Helgason skrifar

Árið 1938 mótaði afi minn Ásmundur Sveinsson myndhöggvari mynd sem hann kallaði Fyrsta hvíta móðirin. Verk þetta sýnir Guðríði Þorbjarnardóttur en talið er að hún hafi verið fyrsta evrópska konan sem ól barn í Ameríku og var það um árið 1000. Verkið var sýnt á heimssýningunni í New York árið 1939. Það eintak er eftir því sem ég best veit týnt en fjórar afsteypur af verkinu eru til, ein á fæðingarstað Guðríðar að Laugarbrekku á Snæfellsnesi, önnur í Glaumbæ í Skagafirði þar sem Guðríður bjó síðustu æviárin, þriðja í Ottawa í Kanada og sú fjórða í bókasafni páfa í Róm.

Á dögunum bárust þær fréttir að tvær listakonur, Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir, hefðu stolið styttunni á Laugarbrekku og komið henni fyrir í einhvers konar eldflaug fyrir utan Nýlistasafnið. Í viðtali við Vísi þann 11. apríl sl. kemur fram að listakonurnar telja verkið rasískt.

Með þessum orðum er vegið harkalega að æru Ásmundar og okkur afkomendum hans sárnar þau mjög. Verkinu er aðeins ætlað að heiðra minningu Guðríðar og þótt titill þess stuði listakonurnar þá hefur hann ekkert með kynþáttafordóma að gera. Augljóst er að vísun til hvíts húðlitar Guðríðar í titli verksins gefur ein og sér ekki tilefni til þeirrar ályktunar að hann feli í sér einhvers konar upphafningu á hennar kynstofni á kostnað einhvers annars. Við sem þekktum Ásmund vitum að það var sannarlega ekki þetta sem vakti fyrir honum við gerð verksins.

Þá er það með öllu órökstutt af listakonunum að uppsetning verksins árið 1939 tengist stefnu Íslands „á þeim tímapunkti gagnvart flóttamönnum af gyðingaættum.“ Verkið var eins og áður sagði fyrst sýnt á heimssýningunni í New York en sumir telja að í Vínlandsreisu sinni hafi Guðríður og Þorfinnur karlsefni þriðji eiginmaður hennar náð suður til Manhattan-eyjar.

Því miður vekur þessi gjörningur listakvennanna óþægileg hugrenningatengsl við nýleg niðurbrot á styttum í Vesturheimi af herforingjum Suðurríkjanna í þrælastríðinu. Þar fóru menn sem sannarlega voru rasistar og iðkuðu þann ósóma í störfum sínum. Styttur af slíkum mönnum mega miklu fremur enda sem geimrusl en styttan af Guðríði og Snorra litla.

Höfundur er framhaldsskólakennari.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.