Innherji

Ný flokkun hjá FTSE skilar fjölbreyttari flóru og ýtir undir skráningar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. 
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.  Nasdaq Iceland

„Það hefur sárvantað fjölbreytni í fjárfestaflóruna. Við höfum náð árangri þegar kemur að innlendum einstaklingum en erlenda innflæðið hefur ekki verið eins mikið og maður hefði viljað. Með breiðari flóru styrkist verðmyndun og við fáum betri markað,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

Alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell ákvað síðasta föstudagskvöld að færa íslenska hlutabréfamarkaðinn upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets) og tekur sú breyting gildi við opnun markaða 19. september á þessu ári.

Íslenski markaðurinn hefur verið flokkaður sem vaxtarmarkaður (e. Frontier Market) hjá FTSE Russell frá því í september 2019 en með uppfærslunni kemst markaðurinn á ratsjá fleiri og stærri fjárfesta sem hafa heimildir til að fjárfesta í fyrirtækjum í vísitölunni. Umfang sjóða sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við nýmarkaðavísitölur er margfalt meira en þeirra sem fylgja vaxtarmarkaðsvísitölum.

„Þetta snýst ekki einungis um vísitölusjóði – þá erum við líklega að tala um nokkra tugi milljarða – heldur einnig um virka fjárfesta, bæði þá sem sérhæfa sig í fjárfestingum á nýmörkuðum og þá sem einfaldlega sjá flokkun FTSE sem merki um að íslenski markaðurinn sé á réttri leið,“ útskýrir Magnús.

Stóraukið innflæði í Kauphöllina og skilvirkari verðmyndun gerir skráningu á markað að enn álitlegri kosti. „Þótt skráningarumhverfið hafi verið gott að undanförnu mun þetta auka möguleika fyrirtækja til fjármögnunar í Kauphöllinni og styðja þar með við skráningar,“ segir Magnús.

Ef við miðum við að MSCI var tveimur árum eftir FTSE að flokka okkur sem vaxtamarkað þá má ætla að við gætum farið upp um flokk hjá þeim árið 2024.

Á síðustu mánuðum hefur verið greint frá skráningaráformum sjö fyrirtækja úr ólíkum atvinnugreinum. Þau Alvotech, Arctic Adventures, Bluevest Capital, Coripharma. Nova, Samkaup og Ölgerðin. Þegar upp er staðið gætu skráningar á næstu misserum gætu orðið enn fleiri að sögn Magnúsar.

„Eins og staðan er í dag erum við að telja allt upp í 10 félög sem gætu komið inn á markaðinn á þessu ári eða því næsta.“

Fjárfestar tóku vel í fréttirnar og hækkaði Úrvalsvísitalan í gær um 0,8 prósent í um 8,5 milljarða veltu. Sextán af tuttugu félögum á Aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkuðu í verði en gengi bréfa Icelandair, Brim, Síldarvinnslunnar, Arion banka og Íslandsbanka hækkuðu á bilinu 1,5 prósent til 2,6 prósent.

Eins og staðan er í dag erum við að telja allt upp í 10 félög sem gætu komið inn á markaðinn á þessu ári eða því næsta

Magnús segir vísbendingar um að erlendir fjárfestar hafi nú þegar byrjað að kaupa í íslenskum félögum.

„Það byrjaði jafnvel áður en FTSE sendi út tilkynninguna vegna þess að það voru væntingar um jákvæða niðurstöðu. Það eru góðar vísbendingar um að virkir fjárfestar muni koma inn á markaðinn á næstunni en ætla má að passíva innflæðið, það er að segja frá vísitölusjóðunum, komi hins vegar nálægt gildistökunni í september.“

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur einnig verið flokkaður sem vaxtarmarkaður hjá vísitölufyrirtækinu MSCI frá því í maí 2021. MSCI hefur enn ekki gefið neitt út um möguleikann á því að íslenski markaðurinn verði færður upp í flokkinn nýmarkaður.

„Ef við miðum við að MSCI var tveimur árum eftir FTSE að flokka okkur sem vaxtamarkað þá má ætla að við gætum farið upp um flokk hjá þeim árið 2024. Skilyrðin eru ekki ólík og ég álít að í grundvallaratriðum séum við í góðri stöðu þar líka. Og það fylgir meira fjármagn vísitölum MSCI,“ segir Magnús.

Í umfjöllun Innherja í morgun var haft eftir Óðni Árnasyni, sjóðstjóra hjá Stefni að tímasetning tilkynningarinnar frá FTSE Russell væri mjög hagstæð fyrir markaðinn.

„Margir fjárfestar voru eflaust búnir að koma sér upp ágætis lausafjárstöðu eftir innrás [Rússa í Úkraínu] og í aðdraganda nýlegrar sölu ríkisins á seinni skammtinum í Íslandsbanka þar sem mikil umframeftirspurn var. Að auki hafa stórar arðgreiðslur verið að berast frá félögum í Kauphöll sem að einhverju leyti leitar aftur innn á markaðinn. Núna bætist þá við mögulegt innflæði frá erlendum aðilum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×