Innherji

Íslensk félög í sigti margfalt stærri fjárfesta eftir nýja flokkun hjá FTSE

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Áætlað er að fimmtán fyrirtæki á Aðalmarkaði Kauphallarinnar verði tekin inn í FTSE Global All Cap vísitöluna.
Áætlað er að fimmtán fyrirtæki á Aðalmarkaði Kauphallarinnar verði tekin inn í FTSE Global All Cap vísitöluna. VÍSIR/VILHELM

Flokkun Íslands sem nýmarkaðsríki hjá  FTSE Russell laðar tugi milljarða króna af erlendu fjármagni að íslenska hlutabréfamarkaðinum og eykur sýnileika markaðarins á erlendri grundu. Tímasetningin er hagstæð í ljósi þess að innflæði kemur á sama tíma og innlendir fjárfestar beina fjármagni, sem þeir hafa fengið útgreitt í formi arðs á síðustu vikum eða tekið frá fyrir hlutafjárútboð Íslandsbanka, aftur inn á markaðinn. Þetta segja viðmælendur Innherja á fjármálamarkaði.

Alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell ákvað síðasta föstudagskvöld að færa íslenska hlutabréfamarkaðinn upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets) og tekur sú breyting gildi við opnun markaða 19. september á þessu ári.

Fjárfestar tóku vel í þær fréttir og hækkaði Úrvalsvísitalan í gær um 0,8 prósent í um 8,5 milljarða veltu. Sextán af tuttugu félögum á Aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkuðu í verði en gengi bréfa Icelandair, Brim, Síldarvinnslunnar, Arion banka og Íslandsbanka hækkuðu á bilinu 1,5 prósent til 2,6 prósent.

„Augljósu áhrifin eru að stórir vísitölusjóðir munu koma með töluvert fjármagn inn á markaðinn og ber þar helst að nefna sjóði á vegum Vanguard og Invesco,“ segir Örvar Snær Óskarsson, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu. Hann segir erfitt að átta sig á hversu mikið fjármagn sé um að ræða en óhætt sé að skjóta á að það nemi meira en 30 milljörðum króna sem er rétt undir markaðsvirði VÍS.

Íslenski markaðurinn hefur verið flokkaður sem vaxtarmarkaður (e. Frontier Market) hjá FTSE Russell frá því í september 2019 en með uppfærslunni kemst markaðurinn á ratsjá fleiri og stærri fjárfesta sem hafa heimildir til að fjárfesta í fyrirtækjum í vísitölunni.

Hliðaráhrifin eru svo aukinn sýnileiki Íslands á erlendri grundu og má reikna með að fjárfestingavilji erlendra aðila hérlendis aukast í kjölfar þessara tíðinda.

Auk þess má búast við innflæði frá vísitölusjóðum sem fjárfesta í samræmi við samsetningu vísitölunnar. Umfang sjóða sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við nýmarkaðavísitölur er margfalt meira en þeirra sem fylgja vaxtarmarkaðsvísitölum.

„Hliðaráhrifin eru svo aukinn sýnileiki Íslands á erlendri grundu og má reikna með að fjárfestingavilji erlendra aðila hérlendis aukast í kjölfar þessara tíðinda,“ segir Örvar.

Áætlað er að fimmtán fyrirtæki á Aðalmarkaði Kauphallarinnar verði tekin inn í FTSE Global All Cap vísitöluna en FTSE mun tilkynna um endanlega vigt íslensku félaganna í lok júní.

Óðinn Árnason, sjóðstjóri hjá Stefni, segir ómögulegt að áætla hversu mikið innflæðið verður en svo virðist sem erlendir fjárfestar hafi á síðustu dögum og vikum fjárfest í auknum mæli á íslenska markaðinum. Það gefi til kynna að uppfærslan hjá FTSE hafi nú þegar vakið athygli.

Þetta setur landið líka skör hærra hvað varðar athygli erlendra fjárfesta og gæti mögulega opnað fleiri augu fyrir hversu áhugavert það er í raun að fjárfesta á Íslandi

„Þetta er í raun tvíþætt,“ útskýrir Óðinn. „Innflæðið gæti numið tugum milljarða miðað við bjartsýnar spár en þetta setur landið líka skör hærra hvað varðar athygli erlendra fjárfesta og gæti mögulega opnað fleiri augu fyrir hversu áhugavert það er í raun að fjárfesta á Íslandi.“

Þá segir Óðinn að tímasetningin hafi verið mjög hagstæð fyrir markaðinn. „Talsvert fjármagn hefur leitað inn á markaðinn í kjölfar lækkana vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Margir fjárfestar voru eflaust búnir að koma sér upp ágætis lausafjárstöðu eftir innrásina og í aðdraganda nýlegrar sölu ríkisins á seinni skammtinum í Íslandsbanka þar sem mikil umframeftirspurn var,“ segir Óðinn.

„Að auki hafa stórar arðgreiðslur verið að berast frá félögum í Kauphöll sem að einhverju leyti leitar aftur innn á markaðinn. Núna bætist þá við mögulegt innflæði frá erlendum aðilum.“

Eins og fram kom í umfjöllun Innherja námu greiðslur Kauphallarfélaga til hluthafa nærri 60 milljörðum í mars- og aprílmánuði. Það var um þrefalt hærri upphæð en skráð fyrirtæki greiddu út í arð til fjárfesta á öllu árinu 2021.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur einnig verið flokkaður sem vaxtarmarkaður hjá vísitölufyrirtækinu MSCI frá því í maí 2021. MSCI hefur enn ekki gefið neitt út um möguleikann á því að íslenski markaðurinn verði færður upp í flokkinn nýmarkaður.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði í samtali við Innherja í desember að hann teldi ólíklegt að MSCI færði Ísland upp um flokk á þessu ári. Aftur á móti væru forsendur fyrir því að vísitölufyrirtækið tæki flokkun Íslands til endurskoðunar á árinu og breytingin tæki því gildi í fyrsta lagi á næsta ári. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×