Umfjöllun og viðtöl: Tinda­stóll – Þór Akur­eyri 99-72 | Stólarnir fara með sjö sigurleiki í röð í úrslitakeppnina

Ísak Óli Traustason skrifar
Tindastóll er á góðu skriði.
Tindastóll er á góðu skriði. Vísir/Hulda Margrét

Tindastóll fékk Þór frá Akureyri í heimsókn í Síkið í kvöld. Heimamenn byrjuðu leikinn betur og náðu tökum á leiknum frá upphafi og sigruðu nokkuð örugglega að lokum. Lokatölur 99-72.

Fyrir leik var treyja Helga Freys Margeirssonar, fyrrum leikmann Tindastóls hengd upp og honum veitt blóm og viðurkenning. Helgi lék með liðnu við góðan orðstýr á árunum 1997-2002 og 2008-2019. Helgi er mættur í þjálfarateymi liðsins og hefur verið til aðstoðar í vetur.

Þór Akureyrir skoraði fyrstu körfu leiksins en þá breyttu heimamenn stöðunni í 8-2, staðan var svo 11-8 um miðjan leikhluta en þá kom Taiwo Badmus, leikmaður Tindastóls inn á af bekknum með miklum krafti og staðan eftir fyrsta fjórðun var 24-15.

Gott áhlaup Tindastóls í öðrum leikhluta skilaði skyndilegri 23 stiga forrustu. Þór Akureyri gafst þó ekki upp og staðan í hálfleik var 53-36. Taiwo Badmus var orkumikill og skoraði 17 stig í fyrri hálfleik fyrir heimamenn en Baldur Örn Jóhannesson, leimaður Þórs var með 11 stig fyrir gestina.

Áfram hélst forrusta Tindastóls í um 20 stigum í þriðja leikhluta en Þór vann leikhlutann 20 – 18 og munurinn 15 stig fyrir loka fjórðunginn. Agust Emil Haas, leikmaður gestanna frá Akureyri fékk sína fimmtu villu þegar að 8 mínútur voru eftir af leiknum og við það fjaraði undan þessu fyrir þá og sigldu þá Tindastóll heim öruggum sigri. Lokatölur 99 – 72.

Af hverju vann Tindastóll?

Þeir voru að spila góða vörn og neyða Þór í 24 tapaða bolta, Tindastóll skora 28 stig eftir tapaða bolta hjá Þór. Það skoruðu allir hjá Tindastól í leiknum og bekkurinn skilar 55 stigum fyrir þá. Skotnýting hjá Tindastól inn fyrir þriggja stiga línuna var 71% og þeir skora 50 stig í teignum á Þór. Það voru meiri gæði í þessu hjá Tindastól og voru þeir yfir í flestum þáttum leiksins hér í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Taiwo Badmus átti flottan leik fyrir Tindastól en hann endaði með 24 stig og 5 fráköst. Javon Bess skilaði sínu eins og alltaf og er með 22 stig og 6 fráköst. Helgi Rafn Viggósson var með gott framlag af bekknum eins og Badmus félagi sinn.

Hjá Þór skilaði Dúi Þór Jónsson 14 stigum og 10 stoðsendingum og Baldur Örn Jóhannesson var með 15 stig og 11 fráköst.

Hvað hefði betur mátt fara?

Þór tapaði allt of mörgum boltum í leiknum og skjóta illa fyrir utan þriggja stiga línuna eins og Tindastóll sem hafa átt betri daga þar.

Þór barðist vel í þessum leik og gáfust aldrei upp þótt munurinn væri mikill.

Hvað gerist næst?

Tindastóll leikur við Keflavík á heimavelli í úrslitakeppninni á meðan að nágrannar þeirra frá Akureyri eru komnir í sumarfrí og búa sig undir átökin í næst efstu deild á næsta tímabili.

Helgi Rafn: Gerðum það sem við þurftum að gera

Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls.Vísir

Helgi Rafn Viggósson, fyrirlið Tindastóls átti ljómandi góðan leik fyrir sína menn í kvöld. Helgi endaði með 11 stig, 4 fráköst, 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

„Ég er ánægður með alla í liðinu, hvort sem það eru fyrstu fimm eða allur bekkurinn,“ sagði Helgi og bætti við að ,,það mættu allir klárir í þennan leik og við gerðum það sem við þurftum að gera.“

„Það hefur sannað sig í síðustu leikjum hjá Þór Akureyrir að þeir kunna alveg körfubolta og lið hafa verið í ströggli á móti þeim, við máttum ekkert vanmeta þá.“ sagði Helgi.

Tindastóll endar í 4. sæti Subway deildarinnar og mæta þar að leiðandi Keflavík sem enda í 5. sæti.

Aðspurður út í þá viðureign sagði Helgi að honum litist vel á það

„Þetta eru bara tvö góð lið og nú er bara skemmtileg stund að byrja.“

Tindastóll hefur sigrað 7 leiki í röð og koma á mikilli siglingu inn í úrslitakeppnina. Þetta er öfugt við undanfarin tímabil þar sem að Helgi og félagar hafa komið inn í úrslitakeppnina í niðursveiflu.

„Jú jú, við höfum prófað hitt líka og það hefur ekki gengið. Það er gott að prófa þetta líka og koma á smá rönni inn í úrslitakeppnina,“ sagði Helgi að lokum.

Bjarki: Langar ekki að kenna neinu öðru um nema okkur sjálfum

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs.Vísir/Vilhelm

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs Akureyri var stoltur af liði sínu þrátt fyrir tap.

„Ég er stoltur af strákunum fyrir það að gefast ekki upp og hengja ekki haus sama hver staðan var,“ sagði Bjarki.

„Við vorum að spila hérna við frábært Tindastólslið sem er á miklu rönni, þeir spila góða og physical vörn og okkur gekk illa að finna svör,“ sagði Bjarki.

Þór Akureyri enda í síðasta sæti Subway-deildarinnar með einn sigurleik yfir tímabilið. Bjarki taldi þetta hafi verið erfitt tímabil sem hafði einkennst af vonbrigðum og óheppni.

„Við vorum óheppnir með erlenda leikmenn, meiðsli og annað. En svona heilt yfir þá held ég að ég skrifi það ekkert á það bara, mig langar ekki að kenna neinu öðru um nema okkur sjálfum,“ sagði Bjarki.

Aðspurður út í það hvort Bjarki myndi taka slaginn með liðnu á næsta tímabili í næst efstu deild sagði hann nei.

„Nú er ég hættur meistaraflokksþjálfun, kannski ég verð bara að þjálfa yngri flokka og einbeiti mér meira að börnunum mínum,“ sagði Bjarki.

Framtíðin er þó bjórt fyrir Þórsara þar sem að liðið er ungt að aldri.

„Það eru allir á unglingaflokks aldri í liðinu nema Hlynur Freyr, ungur og efnilegur samt er hann,“ sagði Bjarki.

„Það er spennandi framtíð hjá liðinu og sama hvað þessir strákar taka sér fyrir hendur, ég bara reikna með því að lið í úrvalsdeildinni munu t.d. sækjast í krafta Dúa og þó munum við gera það líka,“ sagði Bjarki.

„Það býr mikið í þessum strákum, þeir eru ósigraðir í unglingaflokki, reyndar í 2. deildinni en spenntir að takast á við krefjandi verkefni og það verður gaman að fylgjast með þessum strákum í framtíðinni.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira