Umræðan

Andstaða við skipulagðar umferðartafir

Erlendur Magnússon skrifar

Ein er sú auðlind sem skipt er nákvæmlega jafnt á milli allra íbúa heimsins ár hvert og það er tíminn. Það fær enginn meira af honum en annar, það getur enginn geymt tíma til síðari afnota og það getur enginn keypt sér meiri tíma. Við notum tíma okkar til að afla okkur viðurværis, rækta líkama og sál, hvílast, njóta félagsskapar ástvina og annarra, og svo mætti lengi telja. 

Til þess að gera sem mest úr tíma okkar þurfum við því að forgangsraða og hafa með okkur verkaskiptingu. Að sama skapi viljum við forðast að sóa tíma okkar í tilgangsleysi, svo sem að verja óþarfalega löngum tíma í ferðir til eða frá einum stað til annars í starfi eða leik.

Í ljósi ofangreinds kom ekki á óvart að í viðhorfskönnun sem MMR framkvæmdi á höfuðborgarsvæðinu í maí á síðasta ári kom fram almenn andstaða við stefnu sveitarfélaga sem miðar að því að tefja almenna umferð og stuðla þannig að óskilvirkara umferðarflæði og sóa tíma okkar. Oft eru þessar tafaaðgerðir sagðar vera í nafni aukins öryggis, en sjaldnast eru nokkur gögn sem sýna að öryggi sé ábótavant eða að viðkomandi aðgerðir muni í raun bæta öryggi. 

Almenn andstaða er við stefnu sveitarfélaga sem miðar að því að tefja almenna umferð og stuðla þannig að óskilvirkara umferðarflæði og sóa tíma okkar.

Til þessara aðgerða teljast lækkun hámarkshraða á megin umferðaræðum úr 50 km/klst í 40 km/klst, fjölgun hraðahindrana og staðsetning stoppistöðva strætisvagna á miðjum umferðarakreinum í stað þess að byggja sérstök útskot fyrir strætisvagna. Þessa andstöðu almennings má finna jafnt hjá körlum og konum, í öllum aldurshópum, meðal allra starfsstétta og í öllum tekjuhópum.

  • Lækkun hámarkshraða: 70% þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni lýstu sig andvíga lækkun hámarkshraða.
  • Fjölgun hraðahindrana: 61% þeirra sem tóku afstöðu sögðust andvígir fjölgun hraðahindrana.
  • Staðsetning stoppistöðva strætisvagna: Mest afgerandi var afstaða fólks til staðsetninga stoppistöðva strætisvagna. Um 98% þátttakenda sem afstöðu tóku vildu að strætisvagnar stoppuðu við sérstök útskot í stað þess að stoppa beint á umferðarakreinum og þannig tefja aðra umferð að óþörfu.

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu snúa ekki aðeins að ferðum fólks til og frá vinnu eða skóla eða í frístundum. Greið umferð skiptir líka miklu máli fyrir flutninga á vörum og öðrum aðföngum fyrirtækja og stofnanna. Umferðatafir hafa mjög neikvæð áhrif á efnahag, draga úr kaupmætti launa, skerða hagnað fyrirtækja, og draga þar af leiðandi úr tekjum ríkis og sveitarfélaga. Þá ganga umferðatafir á frítíma fólks og gera ávinninginn af styttingu vinnutíma mun minni en annars væri. Það er því ekki undarlegt að fólk sé almennt mótfallið vísvitandi umferðartöfum. 

Umferðatafir hafa mjög neikvæð áhrif á efnahag, draga úr kaupmætti launa, skerða hagnað fyrirtækja, og draga þar af leiðandi úr tekjum ríkis og sveitarfélaga.

Það er hins vegar erfiðara að skilja hvers vegna þeir sem koma að skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars borgar- og bæjarfulltrúar, skuli markvisst stuðla að slíkum aðgerðum. Með því ganga þeir augljóslega gegn hagsmunum og viðhorfum kjósenda.

Höfundur er fjárfestir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×