Innherji

„Ég var einmana í gegnum allt þetta ferli“

Haraldur Þorleifsson, stofnandi hönnunarstofunnar Ueno, samþykkti kauptilboðið frá Twitter, lægsta tilboðið sem honum barst, vegna þess að hann sá fram á að geta haft jákvæð áhrif á umræðuna sem verður sífellt skautaðri. Í viðtali við Innherja segir hann að stærsta vandamál nútímans sé það hvernig molnað hefur undan samfélagssáttmálanum á undanförnum árum og að ekki sé gengið nógu langt í því að beita skattkerfinu til að útrýma fátækt.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Eftir söluna tók Haraldur við stjórn nýsköpunarteymis innan Twitter sem einblínir á að framtíðarvörur fyrirtækisins. VÍSIR/VILHELM

Haraldur Þorleifsson, stofnandi hönnunarstofunnar Ueno, samþykkti kauptilboðið frá Twitter, lægsta tilboðið sem honum barst, vegna þess að hann sá fram á að geta haft jákvæð áhrif á umræðuna sem verður sífellt skautaðri. Í viðtali við Innherja segir hann að stærsta vandamál nútímans sé það hvernig molnað hefur undan samfélagssáttmálanum á undanförnum árum og að ekki sé gengið nógu langt í því að beita skattkerfinu til að útrýma fátækt.

Áhuginn á hönnun kviknaði þegar Haraldur lærði viðskiptafræði við Háskóla Íslands og tók kúrs þar sem hann átti meðal annars að búa til heimasíðu. Þannig byrjaði hann að fikta við hönnun og taka að sér verkefni sem héldu honum uppi fjárhagslega á meðan náminu stóð.

„Hugmyndin var samt alltaf sú að þetta yrði bara tímabundið,“ segir Haraldur en hann stofnaði fljótlega litla hönnunarstofu ásamt tveimur öðrum. Þetta var árið 2001.

„Fyrirtækið fór frekar hratt á hausinn. Einn þeirra sá um öll fjármálin og það kom síðan í ljós að hann var eiginlega bara siðblindur. Við tveir sátum uppi með skuldirnar á meðan hann sigldi út úr þessu alveg frjáls. Þetta voru nokkrar milljónir á þeim tíma. Ég átti engan peninga fyrir og var búinn að vera launalaus í eitt og hálft ár hjá fyrirtækinu,“ segir Haraldur.

„Eftir það byrjaði ég að vinna mig út úr þessu, fór að vinna meira við hönnun á litlum stofum á Íslandi og gerði það til ársins 2006 þegar ég flutti út.“

Það er mjög mikilvægt að fólk hafi rétt á því að hafa rangt fyrir sér [...] En á sama tíma þarf að passa að samfélagsmiðlar séu ekki misnotaðir til að dreifa ósannindum.

Haraldur flutti til New York og þar sem hann fékk vinnu hjá litlu vefhönnunarfyrirtæki. Hann hefur áður lýst dvölinni í New York sem „klassískri sögu um sveitastrákinn sem kemur í borgina og lendir í vandræðum.“ Eftir rúmt ár var hann rekinn fyrir að vera lélegur starfskraftur og þar sem vegabréfsáritunin var tengd starfinu var honum gert að yfirgefa Bandaríkin í snatri.

Næstu sjö ár vann Haraldur sem hönnuður í lausamennsku og á þessum tíma byggði hann upp tengslanet sem lagði grunninn að stofnun Ueno árið 2014.

„Ég var kominn með alls konar stórverkefni í fangið og hugsaði með mér að það væri sniðugt að búa til batterí í kringum þetta og ráða undirverktaka með mér. Fyrsta árið vann ég meira en 100 tíma í hverri viku sem það skilaði sér í veltu upp á 200 milljónir króna og helmingurinn varð eftir sem hagnaður. Þá var kominn sjóður sem hægt var að nýta til að ráða fólk og stækka.“

Einleitni einkennir Kísildalinn

Haraldur flutti til San Francisco árið 2015, þá með fimm starfsmenn á Íslandi og áform um að útvíkka starfsemina til Bandaríkjanna. „Kosturinn við að eiga pening var sá að við gátum tekið áhættur og ráðið fleiri starfsmenn en við þurftum. Og við bjuggum mjög hratt til gott teymi.“

Hvernig líkaði þér við menninguna í Kísildalnum?

„Mesti kosturinn og jafnframt mesti ókosturinn við Kísildalinn er einsleitni þar sem mjög mikið af fólki hugsar á mjög svipaðan hátt. Hvort sem maður er úti að rölta eða inni á veitingastað eru næstum því allir í kringum mann að vinna í sama geira. Mér líður betur í New York þar sem það eru aðrir stórir bransar, fólk sem vinnur í fjármálum, fjölmiðlum, tísku og eiginlega bara hverju sem er“ segir Haraldur.

Útrásin til Bandaríkjanna skilaði stórum kúnnum á borð við Google, Youtube og Apple, og örum tekjuvexti. Árið 2019, einungis fimm árum eftir stofnun, var velta Ueno nærri 2,2 milljarðar króna, starfsmenn voru 60 talsins.

VÍSIR/VILHELM

Hver var lykillinn að árangri Ueno að þínu mati?

„Ég held að margar ástæður búi að baki. Ég var byrjaður að vinna með erlendum kúnnum þannig að tengingarnar voru til staðar. Og í framhaldinu flutti ég í Kísildalinn sem var lykillinn að því að vera í sambandi við rétta fólkið. En í grunninn laut Ueno sömu lögmálum og önnur þjónustufyrirtæki. Maður þarf að passa að allir kúnnarnir séu besta sölufólkið, þ.e.a.s. að þeir séu svo ánægðir að vinna með okkur að þeir láti orðið berast. Til þess þarf maður að geta sett sig í spor kúnnans og uppfylla þarfir hans eins hratt og vel og mögulega hægt er,“ segir Haraldur.

Hverjar voru helstu áskoranirnar í hlutverki þínu sem stjórnandi?

„Ég hafði aldrei verið yfirmaður og aldrei verið með góðan yfirmann. Þetta tók tíma og ég er enn að læra. Bandaríkjamenn líta öðruvísi á stjórnun en Íslendingar, þeir ætlast til þess að stjórnendur passi upp á starfsmenn á meðan Íslendingar eru dálítið í því að henda fólki í djúpu laugina og halda að allir reddi sér. Sem er ágætt að upp að vissu marki. En það tók mig smá tíma að átta mig á því, eins furðulega og það hljómar, að það vissu ekki endilega allir það sem ég vissi og að það hugsi ekki allir eins og ég.“

Þegar heimsfaraldurinn kom til sögunnar snemma árs 2020 hrundu tekjur Ueno um 80 prósent og fyrirtækið var nauðbeygt til að segja upp fjölda starfsmanna. En um mitt ár varð skyndilegur viðsnúningur þegar tæknifyrirtæki áttuðu sig á því, að sögn Haraldar, hversu mikil tækifæri fælust í því að allt væri að færast miklu hraðar yfir á netið. Þrátt fyrir erfiða byrjun var vöxturinn í heildina yfir árið um 40 prósent milli ára.

„Þetta var rosalegur rússíbani og ég var alveg búinn á því. Þarna var ég kominn á endastöðina. Ég hafði gert allt sem ég ætlaði mér að gera og fann ekkert markmið sem ég var spenntur fyrir,“ segir Haraldur.

Tók tilboði Twitter til að hafa jákvæð áhrif

Eins og kunnugt er seldi Haraldur Ueno til Twitter í byrjun árs 2021. En Twitter var ekki eina fyrirtækið sem sýndi áhuga og Haraldur segir að samfélagsmiðillinn hafi í raun lagt inn lægsta tilboðið. Hann hafði reglulega fengið tilboð frá stórum eignarhaldsfélögum sem eiga fjöldan allan af hönnunarstofum.

„Ef ég hefði selt Ueno til eignarhaldsfélags þá hefði ég þurft að reka fyrirtækið áfram sjálfur eða ráða fólk til að reka það fyrir mig. En ég sá aldrei fram á að geta sleppt tökunum almennilega,“ segir Haraldur.

Ég var eini eigandinn og sat einn í stjórninni, tók aldrei lán og fékk aldrei fjármagn frá neinum öðrum. Það var einmanalegt að vera með alla ábyrgðina.

„Ofan á það bjó ég í Bandaríkjunum þegar kosningarnar fóru fram og trúði ekki að þetta yrði aftur tæpt. En þegar Trump og hans fólk afneitaði því að hann hefði tapað byrjaði ég að velta fyrir mér hvers konar raunveruleika við hefðum búið til og hvernig ég gæti reynt að hafa jákvæð áhrif.“

„Örfá fyrirtæki fara með gífurleg völd og þessi fyrirtæki geta sveigt heiminn í alls konar áttir. Þess vegna ákvað ég að taka tilboðinu frá Twitter þrátt fyrir að það hefði verið lægsta tilboðið. Ég sá fyrir mér að þar væri möguleiki til þess að hafa jákvæð áhrif.“

Þú ert að vísa til samfélagsmiðla, ekki satt?

„Jú. Eitt stærsta vandamál nútímans er að það er að molna undan samfélagssáttmálanum. Það var orðin útbreidd skoðun að vísindi og lýðræði skiptu máli en skyndilega byrjuðum við að rífast um hluti sem allt sæmilega heiðarlegt fólk ætti að vera sammála um. Það er til dæmis engin sönnun fyrir því að Trump hafi unnið kosningarnar á síðasta ári og það er merkilegt að við séum enn að rökræða um hvort loftslagið sé að breytast af mannavöldum. Ef við getum ekki verið sammála um grundvallaratriði og ef allt er orðið grunsamlegt og fólk trúir ótrúlegustu hlutum þá er erfitt fyrir samfélagið að þróast áfram í góða átt.“

Er hlutverk samfélagsmiðla að beina umræðunni í réttan farveg?

„Þetta er erfið og flókin umræða. Það er mjög mikilvægt að fólk hafi rétt á því að hafa rangt fyrir sér og samfélagsmiðlar eiga að gefa öllum rödd. En á sama tíma þarf að passa að samfélagsmiðlar séu ekki misnotaðir til að dreifa ósannindum. Það er ekki einfalt mál að búa til reglur og ferla sem samrýma þessi sjónarmið.“

Eftir söluna tók Haraldur við stjórn nýsköpunarteymis innan Twitter sem einblínir á að framtíðarvörur fyrirtækisins. Hann kveðst ekki getað tjáð sig um mögulega yfirtöku Elon Musk á samfélagsmiðlinum en auðjöfurinn hefur boðað stóraukna áherslu á tjáningarfrelsi.

Hvernig var tilfinningin eftir að hafa selt fyrirtækið?

„Ég var búinn að reka fyrirtækið í sjö ár en þrátt fyrir að hafa unnið með fullt af góðu fólki var ég einmana í gegnum allt þetta ferli. Ég var eini eigandinn og sat einn í stjórninni, tók aldrei lán og fékk aldrei fjármagn frá neinum öðrum. Það var einmanalegt að vera með alla ábyrgðina. Þess vegna var rosalegur léttir að klára þetta,“ segir Haraldur og hann bætir við að uppgangur Ueno hafi tekið sinn toll.

„Ég er alki og drakk mjög illa mjög lengi. Alkar drekka oft til að flýja raunveruleikann og það sama gildir um vinnualka. Þegar ég hætti að drekka árið 2011 þurfti ég að flýja raunveruleikann með öðrum hætti. Í staðinn fyrir að drekka var ég alltaf að vinna. Þetta var ekki heilbrigt.“

Nægar auðlindir til að útrýma fátækt

Salan til Twitter vakti mikla athygli og ekki síst yfirlýsingar Haraldar um að hann hafi flutt til Íslands áður en salan gekk í gegn í þeim tilgangi að greiða skatta af sölunni hér á landi. Hann sagðist með þessu vilja styðja við skóla-, heilbrigðis-, og velferðarkerfi sem hafi hjálpað sér og öðru fólki úr lágtekjufjölskyldum að dafna.

Stór hluti af kaupverðinu var þannig greiddur með launagreiðslu upp á 1,1 milljarð króna í gegnum útibú Twitter á Íslandi. Má því áætla að Haraldur hafi greitt um hálfan milljarð króna af þeirri upphæð í tekjuskatt og launatengd gjöld.

Ég vona að Seðlabankinn og ráðuneytin endurskoði regluverkið þannig að það ýti undir nýsköpun frekar en að hamla henni

Telur þú að auðmenn eigi að bera þyngri skattbyrði en þeir gera í dag?

„Ég held að dæmin sýni að vaxandi ójöfnuður býr til alvarleg vandamál. Þó að við getum augljóslega ekki búið til heim þar sem allir eru jafnir þá er mikilvægt að samfélagið geri sitt besta til að aftengja ekki fólk frá samfélaginu hvort sem það er vegna mikillar fátæktar eða ríkidæmis. Það þarf alltaf að finna einhvern milliveg til að þetta gangi upp en þegar maður hugsar til þess að það búi fátækt fólk á Íslandi þá hlýtur maður að komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekki gengið nógu langt. Við eigum nægar auðlindir til útrýma fátækt,“ segir Haraldur.

Ójöfnuðurinn í Bandaríkjunum hlýtur þá að vekja upp sterkar tilfinningar, eða hvað?

„Það er rosalegt að upplifa öfgarnar í Bandaríkjunum. Þar búa einstaklingar sem á meiri pening en mörg þjóðríki á sama tíma og mikill fjöldi fólks býr á götunni. Það glímir við andleg vandamál, fær ekki hjálp og getur varla lifað af. Ég trúi ekki að neinum finnst þetta eðlilegt.“

Hið opinbera hindrar nýsköpun í bankakerfinu

Haraldur er fjórði stærsti hluthafinn í indó, nýjum sparisjóði sem mun hefja starfsemi í haust. Indó fékk starfsleyfi frá Seðlabanka Íslands um miðjan febrúar varð nýlega fullgildur þátttakandi í greiðslukerfi banka á Íslandi.

Aðspurður segir Haraldur að flestar fjárfestingar hans í nýsköpun séu erlendis en á Íslandi horfir hann til þess að fjárfesta í verkefnum sem eru til þess fallin að hafa víðtæk áhrif.

„Bankakerfið er til dæmis er rosalega stórt og tekur til sín stóran skerf af hagkerfinu. Þegar ég hitti fólkið hjá indó sá ég möguleika á að hjálpa til við að hrista upp í þessu. Það á að vera hægt að byggja upp banka sem skilar sínu til eigenda án þess að rukka öll þessi gjöld,“ segir Haraldur.

„Og eftir að hafa unnið með indó er það sem kemur mest á óvart að opinbera kerfið er óvinveitt svona fyrirtækjum. Það eru alls konar reglur og kvaðir sem miðast við banka sem velta tugum milljarða en eru settar á lítið nýsköpunarfyrirtæki. Ég vona að Seðlabankinn og ráðuneytin endurskoði regluverkið þannig að það ýti undir nýsköpun frekar en að hamla henni.“

Þá er Haraldur hugmyndasmiðurinn og helsti styrktaraðilinn á bak við átakið Römpum upp Reykjavík sem miðar að því að stórbæta hjólastólaaðgengi. Átakið hefur skilað sér í eitt hundrað römpum í miðbæ Reykjavíkur og nýlega var ákveðið að bæta byggja 1000 rampa til viðbótar um allt landið.

„Við byrjuðum í Reykjavík með 100 rampa og ætluðum að klára verkefnið á einu ári sem var talið mjög metnaðarfullt. Þetta var bara tala sem mér datt í hug enda hafði ég aldrei byggt rampa áður. Við renndum blint í sjóinn en kláruðum verkefnið á átta mánuðum,“ segir Haraldur.

„En þrátt fyrir að hafa byggt 100 rampa í miðbænum er enn nóg eftir niðri í bæ og síðan er það restin af Reykjavík og landsbyggðin. Allt í allt verða þetta 1100 rampar og við höfum fjögur ár til þess að klára þetta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×