Dusty néri salti í sár Þórs

Snorri Rafn Hallsson skrifar
dusty þór

Dusty tryggðu sér efsta sætið í deildinni í síðustu umferð og því var einungis um heiðursviðureign að ræða. Þórsarar eru nokkuð öruggir í öðru sætinu en fyrri leikir Dusty og Þórs fóru 16–13 fyrir Dusty og 16–11 fyrir Þór.

Liðin kusu að mætast í Mirage og hafði Þór betur í skammbyssulotunni og byrjaði í vörn (Counter-Terrorists). Þórsarar höfðu tækifæri til að vinna fyrstu lotuna en Dusty hafði betur og fjárfesti vel í næstu lotu. Þá felldi Zolo tvo leikmenn Dusty snemma í lotunni sem svöruðu um hæl og jöfnuðu. Liðin börðust hart í upphafi leiks en fljótlega fór að halla undan fæti hjá Þórsurum og náði Dusty forskoti, 6–1 þar sem leFluff átti meðal annars fjórfalda fellu til að bjarga lotu fyrir horn.

Dusty voru einfaldlega beittari sem lið og einstaklingsframtök Þórsara gátu ekki séð við þeim. Dusty gat stjórnað hraðanum í leiknum en um miðbik hálfleiksins fóru leikmenn Þórs að hitta betur og vinna nokkar lotur. Var Dabbehhh atkvæðamestur Þórs megin en Thor og leFluff hjá Dusty sem fóru inn í síðari hálfleik með þriggja lotu forskot.

Staða í hálfleik: Dusty 9 – 6 Þór

Aftur hafði Dusty betur í skammbyssulotunni og fylgdi því eftir með því vinna þá næstu þar sem Eddezennn náði að fella fjóra Þórsara. Ekkert lát var á velgengni Dusty sem sýndi svo sannarlega hvers vegna þeir eru sigurvegarar deildarinnar með öguðum leik og góðum stuðningi. Bjarni kláraði fjórtándu lotu Dusty með fallegu skoti og útlitið orðið ansi slæmt fyrir Þór í stöðunni 14–6 fyrir Dusty.

Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Dusty þar sem Þórsarar voru bæði máttlausir og blankir. Allt féll um sjálft sig fyrir Þór í síðustu lotunni og viðeigandi að enginn annar en Thor tryggði Dusty öruggan sigur í 22. lotu.

Lokastaða: Dusty 16 – 6 Þór

Með þessu hefur Dusty unnið innbyrðis viðureignirnar gegn öllum hinum liðunum í deildinni og aukið forskot sitt á toppi deildarinnar. Hvort Þór endar í öðru eða þriðja sæti deildarinnar ræðst í næstu umferð þegar liði mætir Kórdrengjum þriðjudaginn 29. mars, en 1. apríl tekur Dusty á móti Vallea í síðasta leik tímabilsins. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira