Skoðun

Hag­vaxtar­auki og hús­næðis­stuðningur

Drífa Snædal skrifar

Það var staðfest í vikunni að hagvaxtaraukinn sem samið var um 2019 komi til framkvæmda frá 1. apríl og verði greiddur út í fyrsta sinn þann fyrsta maí. Launataxtar munu hækka um 10.500 kr. og almenn laun um 7.875 kr. þar sem hagvöxtur mældist á síðasta ári. Það er mikilvægt að þessar hækkanir komi núna ekki síst vegna hækkandi verðlags og dýrtíðar í kjölfar heimsfaraldurs og stríðsins í Úkraínu. Atvinnurekendur fóru fram á að þetta ákvæði myndi ekki virkjast en samninganefnd ASÍ tók þá ákvörðun sem fyrr að verja samningana alla leið. Það hefur reynst farsælt.

Í vikunni kom út mánaðaryfirlit Alþýðusambandsins þar sem kemur í fyrsta sinn skýrt fram að húsnæðisstuðningur hins opinbera hefur færst frá því að vera í formi vaxtabóta til fólks úr öllum tekjuhópum yfir í að vera helst stuðningur til þeirra tekjuhæstu í gegnum skattafrádrátt lífeyrissparnaðar. Ójöfnuður getur leynst víða og úrræði sem ætluð eru til að létta fólki lífið geta haft þveröfug áhrif. Í þessu tilviki má gefa sér að þetta úrræði hafi hækkað húsnæðisverð og á sama tíma dregið úr stuðningi við þá sem mest þurfa. Nú er því nánast ógerningur fyrir tekjulágt fólk að komast inn á eignamarkaðinn. Einmitt þess vegna skipta tilfærslukerfin svona miklu máli. Barnabætur, húsaleigubætur og vaxtabætur, ásamt skattkerfinu eru öflugustu kerfin sem við eigum til að búa til jöfnuð og veita liðsinni þar sem þess er þörf. Þannig skapast jafnvægi. Ég fagna ályktun ASÍ-UNG sem var samþykkt í fyrradag þar sem þess er krafist að húsnæðisstuðningur stjórnvalda beinist að ungu og tekjulágu fólki og ég tek undir þessa kröfu.

Samfélög þar sem jöfnuður ríkir eru farsælustu samfélögin, fyrir einstaklinga og fyrir heildina. Framleiðnin er meiri, nýsköpun, listir blómstra og velmegun er almennt meiri. Forsenda jöfnuðar er sterk verkalýðshreyfing sem vinnur fyrir launafólk og beitir sér fyrir bæði sanngjörnu endurgjaldi fyrir vinnu en ekki síður fyrir því að stjórnvöld nýti sín tæki til jöfnuðar og almennrar velmegunar. Það er skýr fylgni á milli sterkra verkalýðshreyfinga á vesturlöndum og jöfnuðar og farsældar.

Við skulum aldrei gleyma því.

Góða helgi,

Drífa

Höfundur er forseti ASÍ



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×