Viðskipti innlent

Um helmingur í­búða á höfuð­borgar­svæðinu seldist yfir á­settu verði í janúar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rétt tæplega 40 prósent íbúða á landinu öllu seldust yfir ásettu verði í janúar.
Rétt tæplega 40 prósent íbúða á landinu öllu seldust yfir ásettu verði í janúar. Vísir/Vilhelm

Rétt tæplega 40 prósent íbúða á landinu öllu seldust yfir ásettu verði í janúarmánuði og um 44,9 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallið hefur aldrei mælst hærra. 

Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en þar segir að meðalsölutími íbúða hafi þó lengst nokkuð á höfuðborgarsvæðinu í byrjun árs miðað við mánuðina á undan. Í janúar var meðalsölutími íbúða á svæðinu 43,9 dagar samanborið við 40,8 daga í desember og 36,8 daga í október. 

Eftirspurnarþrýstingur er enn nokkur á íbúðamarkaði en fram kemur í skýrslunni að áhrif 0,75 prósentustiga stýrivaxtahækkana í fyrri hluta febrúar muni ekki koma fram í opinberum tölum strax. Enn eigi því eftir að koma í ljós hvort þær hækkanir muni draga úr eftirspurn. 

Samkvæmt vísitölu paraðra viðskipta nam 12 mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði um 21,9 prósentum í janúar en þar af hækkaði sérbýli um 27,4 prósent og fjölbýli um 21,5 prósent. 

Kaup og sala á íbúðarhúsnæði dregist saman

Viðskipti með íbúðarhúsnæði hefur hins vegar dregist verulega saman milli mánaða og voru 724 talsins á landinu öllu í janúar. Það er um 32 prósentum minna en í desember. Þó kemur fram í tilkynningunni að sé horft á árstíðarleiðréttar tölur hafi samdrátturinn verið mun minni, eða um 11,2 prósent. 

Framboð íbúða til sölu hefur þá haldist nokkuð stöðugt undanfarna mánuði eftir mikinn samdrátt undanfarin tvö ár. Í byrjun marsmánaðar voru 983 íbúðir til sölu á landinu öllu samanborið við 1.017 í byrjun febrúar. Í lok febrúar fór framboðið í fyrsta sinn undir 1.000 íbúðir en í mars í fyrra fór það í fyrsta sinn niður fyrir 2.000 íbúðir.

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði þá um 1,1 prósent milli mánaða miðað við vísitölu leiguverðs í janúar. Leiguverðið er þá um 31,2 prósentum hærra en það var árið 2015 á höfuðborgarsvæðinu ef miðað er við fast verðlag. Þá lækkaði hlutfalli leigjenda í vanskilum töluvert á síðast ári en það var um 5,7 prósent samanborið við 8,4 prósent árið 2020. 


Tengdar fréttir

Seðlabankastjóri segir heimili og fyrirtæki þola aukið aðhald

Efnahagshorfur hafa versnað vegna stríðsins í Úkraínu að mati fjármálastöðuleikanefndar Seðlabankans. Heimili og fyrirtæki standi þó vel og þoli efnahagslegt aðhald með vaxtahækkunum enda væru raunvextir neikvæðir um þessar mundir í fyrsta skipti í fjörutíu ár.

Leigj­enda­sam­tökin lýsa yfir neyðar­á­standi á leigu­markaðnum

Leigjendasamtökin lýsa yfir neyðarástandi á leigumarkaðnum, ennfremur hvetja samtökin stjórnvöld til að setja neyðarlög fyrir húsaleigumarkaðinn. Mikilvægt er að það verði gert til að verja stríđshrjáð flóttafólk, leigjendur og þá sem þurfa að búa sér heimili á leigumarkaði fyrir óheftu okri og fyrirsjáanlegum hækkunum á húsaleigu verði ekkert að gert.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×