Dramatík í Overpass

Snorri Rafn Hallsson skrifar
ÞÓR SAGA

Það var mikil pressa á Þórsurum þegar þeir mættu Sögu í gærkvöldi. Ef þeir lytu í lægra haldi væri út um möguleika á liðsins á að sigra deildina, þurftu þeir að vinna all sína leiki og treysta á að Dusty tapaði öllum sínum. Að sama skapi vantaði Sögu einungis einn sigur til að gulltryggja áframhaldandi setu í Ljósleiðaradeildinni.

Innbyrðis viðureignir liðanna fóru báðar Þór í vil, 16–13 í Dust 2 og 16–8 í Mirage. Í þetta skiptið lá leið liðanna í Overpass, hvar Þórsarar bera höfuð og herðar yfir öll önnur lið í deildinni.

Þórsarar höfðu betur í hnífalotunni og kusu að vanda að byrja í vörn (Counter-Terrorists). Það féll því í hlut Sögu að sækja inn á sprengjusvæði og í skammbyssulotunni fóru þeir hratt og örugglega á svæði B, koma sprengjunni fyrir og felldu alla leikmenn Þórs. Sterk byrjun þar. Í næstu lotu hægðu Þórsarar því á leiknum og létu deiglurnar syngja. Eignuðust þeir mikið pláss snemma í lotunni og endaði ADHD einn gegn Peterrr og Allee. Umkringdu þeir hann og aftengdu sprengjuna á glæsilegan hátt.

Rean bjargaði þriðju lotunni fyrir horn, en hún stóð tæpt, og í kjölfarið vann Þór næstu þrjár lotur með góðri notkun á sprengjum og framarlegri vörn þar sem Allee fór á kostum á vappanum. Saga svaraði þá með því að vængstýfa Þór og fella Allee snemma í næstu tveimur lotum en það skilaði sér ekki í stigi í seinna skiptið þegar Dabbehhh lék á ADHD í lokaeinvíginu.

Þór hélt áfram að auka forskot sitt en Saga rétti örlítið úr kútnum og fór örlítið hægar en hraðir Þórsararnir. Þannig tókst Sögu að sitja fyrir Þórsurum, en aftur svaraði Þór í sparlotu. Skiptust liðin á lotum og krækti Allee í tíundu lotu Þórs með stórgóðri reddingu og forskot Þórs vænlegt í lok hálfleiks.

Staða í hálfleik: Þór 10 – 5 Saga

Þreföld fella Skoon í upphafi síðari hálfleiks minnkaði muninn á ný fyrir Sögu en enn og aftur svaraði Þór í sparlotu og voru það fimm deigluskot í haus sem komu Þór aftur af stað. Voru Þórsarar nánast óstöðvandi í síðari hálfleik og Saga komið með bakið upp við vegg. Þurfti Þór þá einungis eina sigurlotu til að vinna leikinn.

Hleypti það blóði í æðar Sögumanna sem unnu sjö lotur í röð, þar af eina með ási frá ADHD sem var heldur betur kominn í gang á vappanum og fylgdi henni eftir með fjórfaldri fellu í þeirri næstu. Þó langt væri í land gafst Saga síður en svo upp, kom sér oft í yfirtölu og Þórsarar fylgdu sínum tækifærum ekki nægilega vel eftir.

Það tók fimm lotur fyrir Sögu að brjóta banka Þórs en liðsandinn var löngu farinn. Stefndi allt í eina bestu endurkomu tímabilsins en allt kom fyrir ekki. Í tuttugustu og níundu lotu hafðist sigurinn þó loks fyrir Þór sem hélt lífi í möguleikanum á sigri í deildinni, þó ekki væri nema um stund því allt valt það auðvitað á leik Dusty síðar um kvöldið.

Lokastaða: Þór 16 – 13 Saga

Í næstu viku mætir Þór Dusty föstudaginn 25. mars en Saga tekur á móti Kórdrengjum sama kvöld. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira