Skoðun

Al­þjóða­dagur fé­lags­ráð­gjafar

Steinunn Bergmann skrifar

Í dag 15. mars er Alþjóðadagur félagsráðgjafar en árlega taka félagsráðgjafar um allan heim höndum saman til að koma á framfæri sameiginlegum skilaboðum. Það hefur mikið reynt á félagslega samstöðu síðustu tvö árin og saman höfum við farið í gegnum heimsfaraldur með tilheyrandi nýjum áskorunum. Heimsfaraldurinn lagðist þyngst á þau sem standa höllum fæti og félagsráðgjafar um allan heim hafa gengt lykilhlutverki í að vinna með þeim að bættum hag. Alþjóðasamtök félagsráðgjafa fylgjast grannt með stöðu mála og setja fram áherslur fyrir tveggja ára tímabil í senn og 2022-2023 eru skilaboðin: Byggjum saman nýtt vistvænt-félagslegt samfélag: skiljum engin eftir (Co-Building a New Eco-Social World: Leaving No One Behind).

Skilaboðin fela í sér tækifæri til að endurskoða heimsmyndina og gefa uppá nýtt. Félagsráðgjöf byggist á heildarsýn og valdeflingu með félagslegt réttlæti og umhverfisvernd að leiðarljósi. Áfram er ákall um þörfina fyrir alþjóðlega samstöðu og að framtíð okkar velti á viðurkenningu á þátttöku allra í því að byggja upp framtíð sem einkennist af sjálfbærni, sanngirni og félagslegum jöfnuði.

Á alþjóðadegi félagsráðgjafar stendur siðanefnd Félagsráðgjafafélags Íslands (FÍ) fyrir vinnusmiðju þar sem félagsráðgjafar koma saman og ræða hvernig þeir geti betur sinnt málsvarahlutverkinu í vinnu með fólki sem vill breyta aðstæðum sínum og með þeim sem ekki geta varið sig sjálf. Siðareglur félagsráðgjafa hér á landi og á alþjóða vettvangi, snúast um mannréttindi en eins og segir í siðareglum FÍ: Grundvöllur félagsráðgjafar er virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fullnustu. Markmið félagsráðgjafar er að vinna að lausn félagslegra og persónulegra vandamála og sporna við félagslegu ranglæti. Félagsráðgjafi vinnur gegn mannréttindabrotum hvar svo sem þau eiga sér stað. Félagsráðgjafar vinna að þessum markmiðum á hverjum degi og þau eru því hluti af því félagslega öryggisneti sem við treystum á þegar áföll verða.

Nú stöndum við frammi fyrir nýrri ógn sem þarf að bregðast við eftir að fjöldi einstaklinga í Úkraínu hefur verið hrakin á flótta vegna innrásar Rússneska hersins. Meirihluti flóttafólksins eru konur og börn. Öll hafa á augabragði lent í stöðu flóttafólks vegna skelfilegra aðstæðna sem þau höfðu engin áhrif á. Mörg eru veik og í þörf fyrir bráðalæknisþjónustu. Mörg eru án skilríkja þar sem þessi hræðilegi atburður gerði ekki boð á undan sér. Fjöldi félagsráðgjafa og félagsráðgjafarnema í löndum sem liggja að Úkraínu hafa tekið sér stöðu á landamærunum við að aðstoða flóttafólk, enda er neyðin mikil. Þar sem mannréttindi og viðbrögð við þörfum fólks í viðkvæmum aðstæðum eru kjarnin í félagsráðgjöf hafa félagsráðgjafar í Evrópu og um allan heim skipulagt starf til að leggja lið. Alþjóðasamtök félagsráðgjafa hafa hrundið af stað söfnun til að styðja við bakið á félagsráðgjöfum og félagsráðgjafarnemum sem veita aðstoð við landamæri.

Félagsráðgjafar vinna m.a. að því að bæta félagslega heilsu og aðstoða þau sem upplifa streitu og áföll. Í heimsfaraldrinum sýndu félagsráðgjafar hér á landi og um allan heim mikla hugkvæmni til að tryggja órofna þjónustu fyrir viðkvæma hópa og nýttu rafrænar lausnir þar sem því var við komið. Félagsráðgjafar hafa mikla reynslu þegar kemur að vinnu með flóttafólki munu nú taka höndum saman og starfa með stjórnvöldum við að undirbúa móttöku flóttafólks frá Úkraínu.

Félagsráðgjafafélag Íslands hvetur til friðsamlegra samskipta og fordæmir innrás Rússa í Úkraínu og stríðsrekstur hvar sem hann á sér stað. Þá vill félagið lýsa yfir samstöðu með félagsráðgjöfum og öðrum íbúum Úkraínu. Félagsráðgjafar vinna gegn mannréttindabrotum með virðingu fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings. Byggjum saman nýtt vistvænt-félagslegt samfélag: skiljum engin eftir.

Félagsráðgjafafélag Íslands hefur tekið áskorun VR og styrkir hjálparstarf í þágu Úkraínu um 10 evrur á hvern félagsmann. Stjórn félagsins skorar á önnur stéttarfélög að leggja lið.

Höfundur er félagsráðgjafi MPA og formaður FÍ.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.