Formúla 1

Lewis Hamilton breytir nafninu sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lewis Hamilton ætlar að skapa sér nýtt nafn í formúlunni á þessu tímabili.
Lewis Hamilton ætlar að skapa sér nýtt nafn í formúlunni á þessu tímabili. AP/Kamran Jebreili

Sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1 vill ekki lengur heita bara Lewis Hamilton.

Hamilton hefur ákveðið að láta breyta nafninu sínu. Breytingin mun ekki ganga í gegn fyrir fyrsta kappaksturinn á nýju tímabili en hann býst við að keyra samt undir nýju nafni einhvern tímann á 2022 tímabilinu.

Breski ökuþórinn vill nú heiðra móður sína, Carmen Larbalestier, með því að breyta eftirnafni sínu.

Hér eftir ætla hann að heita Lewis Hamilton-Larbalestier. Lewis greindi frá þessu á vörusýningu í Dúbaí.

„Eftirnafn móður minnar er Larbalestier og ég mun bæta því nafni við nafnið mitt. Ég skil ekki hugmyndina á bak við það að konur missi nafnið sitt þegar þær gifta sig,“ sagði Lewis Hamilton nú Hamilton-Larbalestier.

„Ég vil líka bera nafn móður minnar en ég vil samt halda áfram að vera Hamilton,“ sagði Lewis.

Móðir hans hafði gefið eftir eftirnafn sitt þegar hún giftist Anthony Hamilton. Lewis var aðeins tveggja ára gamall þegar þau skildu og þá tók móðir hans upp gamla eftirnafnið sitt aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×