Innherji

Frum­varpið „von­brigði,“ auka þarf svig­rúm til fjár­festinga er­lendis „hraðar og meira“

Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna, meðal annars tveggja af þremur stærstu sjóðunum, gagnrýna að ekki sé gengið lengra í frumvarpsdrögum Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um auknar heimildir þeirra til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum.

Hörður Ægisson skrifar
Samkvæmt frumvarpsdrögum fjármálaráðherra verður fjárfestingarþak á erlendar eignir lífeyrissjóðanna hækkað úr 50 prósentum í 65 prósent. Á sú breyting taka að gildi í fimmtán jafn stórum skrefum á árunum 2024 til 2038. Vísir/Vilhelm

Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna, meðal annars tveggja af þremur stærstu sjóðunum, gagnrýna að ekki sé gengið lengra í frumvarpsdrögum Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um auknar heimildir þeirra til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum.

„Þessi langi innleiðingartími sem lagt er upp með eru vonbrigði. Aðlögunin úr 50 prósentum í 65 prósent þarf að eiga sér stað á mun skemmri tíma. Það þarf að stytta þennan 16 ára innleiðingartíma verulega,“ segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis lífeyrissjóðs.

Í frumvarpinu, sem var birt í samráðsgátt stjórnvalda í gær, er lagt til að svigrúm lífeyrissjóðanna til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum sé rýmkað þannig að lögbundið hámark erlendra eigna verður fært úr því að vera að hámarki 50 prósent af heildareignum sjóðanna upp í 65 prósent. Á þessi breyting taka að gildi í fimmtán jafn stórum skrefum á árunum 2024 til 2038.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR.

Forsvarsmenn helstu lífeyrissjóða landsins, sem eru sumir hverjir komnir afar nálægt fjárfestingarþakinu í erlendri mynt, hafa í nokkurn tíma sagt nauðsynlegt að hækka það að lágmarki í 65 prósent – eða jafnvel afnema það með öllu. Þakið sé orðið íþyngjandi fyrir sjóðina sem hafa síaukna fjárfestingaþörf – hún er talin núna vera nettó vel yfir 400 milljarðar á ári – en takmarkað svigrúm til að ráðstafa fénu erlendis.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), stærsta lífeyrissjóðsins, segir í svari til Innherja að sjóðurinn fagni því að svigrúm til fjárfestinga í erlendri mynt sé rýmkað, enda sé þörfin orðin aðkallandi. „Hins vegar teljum við að of skammt sé gengið og á alltof löngum tíma,“ segir hún, og bætir við:

Til að áhættudreifing slíkra sjóða sé nægileg til lengri tíma er íslenski markaðurinn allt of lítill og nauðsynlegt að auka svigrúmið til erlendra fjárfestinga hraðar og meira en lagt er til.

„Næstum tveir áratugir eru veittir í aukningu um 15 prósentustig, sem dugar ekki nægilega vel til að bregðast við þeim vanda sem margir sjóðir glíma við í dag. Þetta á til dæmis sérstaklega við um A-deild LSR sem er umfangsmikill, ungur og ört vaxandi sjóður með litla útgreiðslubyrði næstu áratugina. Til að áhættudreifing slíkra sjóða sé nægileg til lengri tíma er íslenski markaðurinn allt of lítill og nauðsynlegt að auka svigrúmið til erlendra fjárfestinga hraðar og meira en lagt er til.“

Frumvarpið byggir á skýrslu sem Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastóri, skilaði til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í síðasta mánuði en hann var fenginn, eins og Innherji hefur áður greint frá, til þess að greina hvaða leiðir væru helst færar til að rýmka heimildir íslensku lífeyrissjóðanna til fjárfestinga erlendis.

Í skýrslu sinni segir Már að áfangaskiptingin hafi þann tilgang að draga úr líkum á óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði vegna erlendra fjárfestinga lífeyrissjóðanna. Útfærslan þurfi að taka tillit til þess að ekki er þörf á að fara með hlutdeild erlendra eigna í hámark í „stórum stökkum á allra næstu árum heldur tekur hún áratugi að byggjast upp,“ að því er fram kemur í skýrslunni. Þá er bent að ákvörðun um hærri hlutdeild erlendra eigna lífeyrissjóða leiðir til lægra raungengis en ella sem aftur þýðir meiri viðskiptaafgangur – eða minni viðskiptahalli – en ella. Erlenda fjárfestingin búi þannig til sitt eigið svigrúm. 

Hins vegar skipti máli, að sögn Más, að aðlögunin sé skipuleg og markmið þrepaskiptrar hækkunar sé því að nýta svigrúm greiðslujöfnunar fyrir erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna án þess að búa til óhóflegar skammtímasveiflur sem skapa hættu varðandi efnahags- og fjármálastöðugleika.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis.

Í skýrslu Más kemur fram að erlendar fjárfestingar séu nauðsynlegar til þess að sem mestur árangur náist af sjóðsöfnun til að létta lífeyrisbyrði starfandi, draga úr álagi á innlenda fjármálamarkaði og ruðningsáhrifum í þjóðarbúinu og stuðla að betri áhættudreifingu eigna. Hann tekur þó fram að erlendar fjárfestingar séu þó ekki síður áhættusamar en innlendar fjárfestingar sem hafi jafnframt sína kosti. Þar nefnir hann sérstaklega að þær geta leitt til framleiðniaukningar í innviðum, tækni og framleiðslutækjum sem styðja við iðgjaldagrunninn. Því sé best að eignasafn lífeyrissjóða sé blanda innlendra og erlendra fjárfestinga.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að í frumvarpsdrögum fjármála- og efnahagsráðherra séu tekin skref í rétta átt.

„Sú breyting sem lögð er meðal annars til að hlutfall eigna sé reiknað miðað við viðskiptadag er verulega til bóta en með þeim hætti er sjóðunum gert kleift að nýta heimildina til fjárfestinga erlendis að fullu þar sem síðari hreyfingar á gengi gjaldmiðla eða verði eigna verða ekki til þess að selja þurfi eignir þótt komið sé upp fyrir mörkin.“

Þessi langi innleiðingartími sem lagt er upp með eru vonbrigði. Aðlögunin úr 50 prósentum í 65 prósent þarf að eiga sér stað á mun skemmri tíma.

Hún nefnir tekur hins vegar í sama streng og forsvarsmenn LSR og Gildis og nefnir að það gæti talsverðrar óánægju hjá sumum lífeyrissjóðum, einkum ört vaxandi sjóðum, um að ekki sé gengið nógu hratt fram í að hækka fjárfestingarþakið í erlendri mynt. „Fjárfestingarkostir innanlands eru ekki að aukast í sama takti og sjóðirnir vaxa og því væri mikilvægt að heimildirnar myndu aukast hraðar en gert er ráð fyrir í frumvarpsdrögunum,“ að sögn Þóreyjar.

Í frumvarpinu er jafnframt tillaga, eins og Þórey nefnir, um að hámark fjárfestinga í erlendri mynt verði eingöngu bindandi á viðskiptadegi fjárfestingar. Það hefur í för með sér að ef gengisþróun eða verðþróun á mörkuðum leiðir til þess að erlendar eignir lífeyrissjóða fara upp fyrir þakið hverju sinni verður sjóðum ekki gert að selja eignir til þess komast niður fyrir það líkt og nú er. Frekari fjárfestingar sem auka gjaldmiðlaáhættuna verði þó óheimilar meðan fjárfestingar eru umfram hámark.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Með þessu móti, að sögn fjármálaráðuneytisins, er stefnt að því að lífeyrissjóðir geti betur nýtt þær heimildir sem þeir hafa til fjárfestinga í eignum í erlendum gjaldmiðlum. Stórir lífeyrisjóðir sem eru komnir með vel yfir 40 prósenta hlutdeild í erlendum eignum – LSR og Lífeyrissjóður verslunarmanna – hafa fram að þessu vart talið sér óhætt að auka fjárfestingar sínar í erlendri mynt af ótta við að sveiflur í gengi krónunnar eða í virði erlendu eignanna hækki hlutdeildina upp fyrir lagalegt 50 prósenta núgildandi hámark.

Í frumvarpsdrögunum eru einnig lagðar til breytingar er varða afleiðuviðskipti lífeyrissjóða sem eykur mögulega þeirra til að nýta afleiður til gjaldeyrisvarna. Fram kemur í skýrslu Más að þar sé annars vegar um að ræða að fella niður kröfu um að afleiður sem ekki eru skráðar á markað sé hægt að gera upp samdægurs á raunvirði og að takmörk á umfang afleiða séu orðaðar í lífeyrissjóðalögum með þeim hætti að ljós sé að þær geta endað í neikvæðu virði.

„Þessar breytingar eru forsenda þess að lífeyrissjóðir geti gert einfalda óskráða gjaldeyrisskiptasamninga, en þeir eru víða eitt algengasta form gengisvarna,“ segir í skýrslunni.

Til þess að draga úr gjaldmiðlaáhættu fyrir sjóðfélaga, einkum þá sem eru komnir nærri lífeyristökualdri, er lagt til í frumvarpinu að lífeyrissjóðir þurfi að lágmarki að eiga eignir í sama gjaldmiðli og væntar lífeyrisgreiðslur þeirra til næstu þriggja ára.

Í skýrslu sinni segir Már að flestir ef ekki allir sjóðir virðist gera sér grein fyrir þessu og haga málum í samræmi við það. Til marks um það eru niðurstöður tölfræðiathugunar sem sýna að sjóðir með hærra hlutfall lífeyrisþega og iðgjaldagreiðenda hafa að öðru jöfnu lægri hlutdeild erlendra eigna. Í skýrslunni er lagt til að sá árafjöldi sem miða ætti við varðandi þetta lágmark taki mið af þeirri áhættu sem felst í sveiflum í raungengi krónunnar.

Stóru sjóðirnir komnir í klemmu

Hlutfallsleg vægi erlendra eigna af heildareignasöfnum allra lífeyrissjóða landsins hefur farið stöðugt vaxandi frá afnámi fjármagnshafta árið 2016 og í lok síðasta árs var það 36 prósent að meðaltali. Í tilfelli tveggja stærstu sjóðanna – LSR og LIVE – er hlutfallið hins vegar komið undir 45 prósent sem gerir þeim að óbreyttu ókleift að auka það frekar án þess að eiga hættu á að fara upp fyrir þakið.

Ásgeir Jónsson, núverandi seðlabankastjóri, hefur áður sagst vera hlynntur því að hækka 50 prósenta þakið þegar aðstæður leyfa. Þjóðarbúið þurfi þó að skila meiri viðskiptaafgangi.

„Þegar ferðaþjónustan kemur til baka af fullum krafti þá verða lífeyrissjóðirnir hins vegar að fara auka við erlendar fjárfestingar í eignasöfnum sínum,“ útskýrði seðlabankastjóri í samtali við Innherja um miðjan nóvember.

Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans, sem birtist fyrr í þessum mánuði, er gert ráð fyrir verri horfum þegar kemur að viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins á komandi árum en áður var áætlað. Þrátt fyrir ágætan útflutningsvöxt eru þannig horfur á viðvarandi viðskiptahalla og hann fari úr 0,5 prósenta afgangi í ár í 1,5 prósenta halla árið 2024.

Á síðasta ári námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna um 54 milljörðum króna sem var svipuð fjárhæð og á árinu 2020.


Tengdar fréttir

Vægi erlendra eigna stóru sjóðanna hélt enn að aukast þótt krónan hafi styrkst

Hlutfall erlendra eigna tveggja stærstu lífeyrissjóða landsins, sem eru með eignir upp á samanlagt meira en 2.500 milljarða króna, jókst enn frekar á árinu 2021. Á fjórum árum hefur hlutfallslegt vægi slíkra eigna hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóði verslunarmanna (LIVE) hækkað um eða yfir 40 prósent og færst stöðugt nær lögbundnu hámarki sem kveður á um að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða megi ekki vera meiri en sem nemur helmingi af heildareignum þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×