Innherji

Vægi erlendra eigna stóru sjóðanna hélt enn að aukast þótt krónan hafi styrkst

Hörður Ægisson skrifar
Heildareignir allra lífeyrissjóða landsins námu um 6.732 milljörðum í árslok 2021 en hlutfall erlendra eigna sjóðanna stóð í 35,8 prósentum og hefur aldrei mælst hærra.
Heildareignir allra lífeyrissjóða landsins námu um 6.732 milljörðum í árslok 2021 en hlutfall erlendra eigna sjóðanna stóð í 35,8 prósentum og hefur aldrei mælst hærra. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Hlutfall erlendra eigna tveggja stærstu lífeyrissjóða landsins, sem eru með eignir upp á samanlagt meira en 2.500 milljarða króna, jókst enn frekar á árinu 2021. Á fjórum árum hefur hlutfallslegt vægi slíkra eigna hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóði verslunarmanna (LIVE) hækkað um eða yfir 40 prósent og færst stöðugt nær lögbundnu hámarki sem kveður á um að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða megi ekki vera meiri en sem nemur helmingi af heildareignum þeirra.

Stjórnvöld hafa á undanförnum mánuðum unnið að tillögum að breytingum á löggjöfinni um starfsemi lífeyrissjóða til að tryggja að þeir geti haldið áfram að fjárfesta utan landsteina eins og forsvarsmenn sjóðanna hafa kallað mjög eftir.

Erlendar eignir samtryggingardeildar Lífeyrissjóðs verslunarmanna námu rúmlega 525 milljörðum króna í lok síðasta árs, sem jafngildir um 44,7 prósent af öllum eignum sjóðsins. Hlutfallið hefur aldrei verið hærra en það var til samanburðar rétt yfir 43 prósent í ársbyrjun 2020.

Þetta má lesa út úr nýjum tölum frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands en vægi erlendra eigna stærstu lífeyrissjóðanna hækkaði á sama tíma og gengi krónunnar styrktist talsvert gagnvart helstu gjaldmiðlum í fyrra. Gengisvísitalan hækkaði meðal annars um tæplega 6 prósent gegn evrunni. Þegar gengi krónunnar styrkist þá þýðir að öðru óbreyttu að eignir lífeyrissjóðanna í erlendri mynt lækka að sama skapi í krónum talið.

Hlutfall erlendra eigna LSR, sem var rúmlega 41 prósent af heildareignum sjóðsins fyrir um einu ári, hækkaði sömuleiðis enn frekar á nýliðnu ári og stóð í 43 prósentum í árslok. Til samanburðar var þetta hlutfall hins vegar undir 30 prósentum í ársbyrjun 2018.

Þróunin hjá Gildi, þriðja stærsta lífeyrissjóði landsins, hefur hins vegar verið önnur á undanförnum misserum og hefur dregið talsvert úr ásókn sjóðsins í erlendar fjárfestingar. Vægi erlendra eigna sjóðsins stóð í tæplega 36 prósent lok síðasta árs en það hlutfall hefur farið stöðugt lækkandi frá því um haustið 2020.

Lífeyrissjóðirnir þrír – LIVE, LSR og Gildi – standa undir meira en helmingi eigna alls lífeyrissjóðakerfisins. Heildareignir lífeyrissjóða landsins námu um 6.732 milljörðum í árslok 2021 en hlutfall erlendra eigna sjóðanna stóð í 35,8 prósentum og hefur aldrei mælst hærra. Það hefur farið sífellt hækkandi allt frá því að fjármagnshöftin voru afnumin að fullu árið 2017.

Á síðasta ári námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna um 54 milljörðum króna sem var svipuð fjárhæð og á árinu 2020.

Innherji greindi frá því undir lok síðasta árs að Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, færi nú fyrir vinnu á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem miðar að því að greina hvaða leiðir séu helst færar til að rýmka heimildir íslensku lífeyrissjóðanna til fjárfestinga erlendis. Til stóð að hann myndi skila skýrslu til ráðuneytisins í byrjun þessa mánaðar.

Þar kemur meðal annars til greina að hækka fjárfestingaþakið í áföngum – Landssamtök lífeyrissjóða hafa sagt nauðsynlegt að hækka það sem fyrst í 65 prósent – eða jafnvel að afnema það með öllu. Þá er einnig til skoðunar hvort gera eigi greinarmun á samsetningu erlendra eigna lífeyrissjóðanna eftir seljanleika þeirra, hvort um sé að ræða til dæmis hlutabréf eða skuldabréf, við ákvörðun um að mögulega rýmka fjárfestingarheimildir sjóðanna erlendis.

Í byrjun september á þessu ári skilaði Már af sér skýrslu fyrir Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu sem hópur þingmanna hafði óskað eftir að yrði unnin.

Í niðurstöðum skýrslunnar kom meðal annars fram að hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna þyrfti á komandi árum að verða á bilinu 40 til 50 prósent til að ná æskilegri áhættudreifingu og draga úr ruðningsáhrifum innlendra fjárfestinga sjóðanna. Þá sagði Már í skýrslunni að skoða þyrfti hvort gera ætti breytingar á hámarki gjaldmiðlaáhættu lífeyrissjóða þar sem núverandi 50 prósenta hámark virðist hamla erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna áður en æskilegu hlutfalli erlendra eigna er náð. Ástæðan sé ótti lífeyrissjóða sem eru komnir tiltölulega nærri hámarkinu að lækkun á gengi krónunnar fleyti þeim yfir það á sama tíma og torvelt og kostnaðarsamt er hér á landi að fá gengisvarnir.

Ásgeir Jónsson, núverandi seðlabankastjóri, hefur áður sagst vera hlynntur því að hækka 50 prósenta þakið þegar aðstæður leyfa. Þjóðarbúið þurfi þó að skila meiri viðskiptaafgangi.

„Þegar ferðaþjónustan kemur til baka af fullum krafti þá verða lífeyrissjóðirnir hins vegar að fara auka við erlendar fjárfestingar í eignasöfnum sínum,“ útskýrði seðlabankastjóri í samtali við Innherja um miðjan nóvember.

Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans, sem birtist fyrr í þessum mánuði, er gert ráð fyrir verri horfum þegar kemur að viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins á komandi árum en áður var áætlað. Þrátt fyrir ágætan útflutningsvöxt eru þannig horfur á viðvarandi viðskiptahalla og hann fari úr 0,5 prósenta afgangi í ár í 1,5 prósenta halla árið 2024.

Forsvarsmenn sumra af helstu lífeyrissjóðum landsins hafa á undanförnum mánuðum og misserum kallað eftir því að lögbundið hámark á erlendar fjárfestingar sjóðanna verði endurskoðað. Þakið sé orðið íþyngjandi fyrir lífeyrissjóðina sem hafa síaukna fjárfestingaþörf – hún er talin núna vera nettó vel yfir 400 milljarðar á ári – en takmarkað svigrúm til að ráðstafa fénu erlendis.

Í ársbyrjun 2020 þegar faraldurinn stóð sem hæst samþykktu lífeyrissjóðirnir að gera samkomulag við Seðlabankann þess efnis að gera hlé á gjaldeyriskaupum sínum vegna fjárfestinga erlendis yfir um sex mánaða tímabil.


Tengdar fréttir

Vægi erlendra eigna stærstu sjóðanna nálgast óðum fjárfestingarþakið

Vægi erlendra eigna tveggja stærstu lífeyrissjóða landsins, sem eru með eignir upp á samanlagt um 2.500 milljarða króna í dag, hefur hækkað um meira en þriðjung frá því í ársbyrjun 2018. Færist það stöðugt nær lögbundnu 50 prósenta hámarki sem erlendar fjárfestingar sjóðanna mega vera sem hlutfall af heildareignum þeirra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.