Innherji

Svigrúm lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis verður aukið verulega á næstu árum

Hörður Ægisson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra en í drögum að nýju frumvarpi hans er lagt til að fjárfestingarþak lífeyrissjóða erlendis verði hækkað úr 50 prósentum í 65 prósent af heildareignum þeirra í áföngum til ársins 2038.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra en í drögum að nýju frumvarpi hans er lagt til að fjárfestingarþak lífeyrissjóða erlendis verði hækkað úr 50 prósentum í 65 prósent af heildareignum þeirra í áföngum til ársins 2038. VÍSIR/VILHELM

Heimildir íslensku lífeyrissjóðanna til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum verður rýmkað nokkuð á komandi árum þannig að lögbundið hámark erlendra eigna verður fært úr því að mega vera að hámarki 50 prósent af heildareignum sjóðanna upp í 65 prósent. Mun þessi breyting taka gildi í fimmtán jafn stórum skrefum á árunum 2024 til 2038.

Þetta kemur fram í drögum að frumvarpi með breytingum á lögum um starfsemi lífeyrissjóða sem hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Forsvarsmenn stærstu lífeyrissjóða landsins, sem eru sumir hverjir komnir afar nálægt fjárfestingarþakinu í erlendri mynt, hafa í nokkurn tíma sagt nauðsynlegt að hækka það að lágmarki í 65 prósent – eða jafnvel afnema það með öllu.

Til þess að draga úr gjaldmiðlaáhættu fyrir sjóðfélaga, einkum þá sem eru komnir nærri lífeyristökualdri, er lagt til í frumvarpinu að lífeyrissjóðir þurfi að lágmarki að eiga eignir í sama gjaldmiðli og væntar lífeyrisgreiðslur þeirra til næstu þriggja ára.

Frumvarpið byggir á skýrslu sem Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastóri, skilaði til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í síðasta mánuði en hann var fenginn, eins og Innherji hefur áður greint frá, til .ess að greina hvaða leiðir væru helst færar til að rýmka heimildir íslensku lífeyrissjóðanna til fjárfestinga erlendis.

Í frumvarpinu er jafnframt tillaga um að hámark fjárfestinga í erlendri mynt verði eingöngu bindandi á viðskiptadegi fjárfestingar. Það hefur í för með sér að ef gengisþróun eða verðþróun á mörkuðum leiðir til þess að erlendar eignir lífeyrissjóða fara umfram hámarkið verður sjóðum ekki gert að selja eignir til þess komast niður fyrir hámarkið líkt og nú er. Frekari fjárfestingar sem auka gjaldmiðlaáhættuna verði þó óheimilar meðan fjárfestingar eru umfram hámark.

Með þessu móti, að sögn fjármálaráðuneytisins, er stefnt að því að lífeyrissjóðir geti betur nýtt þær heimildir sem þeir hafa til fjárfestinga í eignum í erlendum gjaldmiðlum. Þá eru lagðar til breytingar er varða afleiðuviðskipti lífeyrissjóða sem auka möguleika þeirra til að nýta afleiður til gjaldeyrisvarna.

Hlutfall erlendra eigna tveggja stærstu lífeyrissjóða landsins, sem eru með eignir upp á samanlagt meira en 2.500 milljarða króna, jókst enn frekar á árinu 2021. 

Á fjórum árum hefur hlutfallslegt vægi slíkra eigna hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóði verslunarmanna (LIVE) hækkað um eða yfir 40 prósent og færst stöðugt nær lögbundnu hámarki um fjárfestingar í erlendum gjaldmiðlum.

Núverandi 50 prósenta hámark hamlar erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna áður en æskilegu hlutfalli erlendra eigna er náð. Ástæðan er ótti lífeyrissjóða sem eru komnir tiltölulega nærri hámarkinu að lækkun á gengi krónunnar fleyti þeim yfir það á sama tíma og torvelt og kostnaðarsamt er hér á landi að fá gengisvarnir.

Ásgeir Jónsson, núverandi seðlabankastjóri, hefur áður sagst vera hlynntur því að hækka 50 prósenta þakið þegar aðstæður leyfa. Þjóðarbúið þurfi þó að skila meiri viðskiptaafgangi.

„Þegar ferðaþjónustan kemur til baka af fullum krafti þá verða lífeyrissjóðirnir hins vegar að fara auka við erlendar fjárfestingar í eignasöfnum sínum,“ útskýrði seðlabankastjóri í samtali við Innherja um miðjan nóvember.

Á síðasta ári námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna um 54 milljörðum króna sem var svipuð fjárhæð og á árinu 2020.


Tengdar fréttir

Vægi erlendra eigna stærstu sjóðanna nálgast óðum fjárfestingarþakið

Vægi erlendra eigna tveggja stærstu lífeyrissjóða landsins, sem eru með eignir upp á samanlagt um 2.500 milljarða króna í dag, hefur hækkað um meira en þriðjung frá því í ársbyrjun 2018. Færist það stöðugt nær lögbundnu 50 prósenta hámarki sem erlendar fjárfestingar sjóðanna mega vera sem hlutfall af heildareignum þeirra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.