Innherji

Fyrrverandi seðlabankastjóri skoðar leiðir til að auka svigrúm lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis

Hörður Ægisson skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri á árunum 2009 til 2019, vann einnig skýrslu um stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu síðastliðið haust fyrir ráðuneytið. 
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri á árunum 2009 til 2019, vann einnig skýrslu um stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu síðastliðið haust fyrir ráðuneytið.  vísir/stefán

Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, fer nú fyrir vinnu á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem miðar að því að greina hvaða leiðir séu helst færar til að rýmka heimildir íslensku lífeyrissjóðanna til fjárfestinga erlendis eins og sumir þeirra hafa kallað mjög eftir.

Lögum samkvæmt má hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna ekki fara yfir 50 prósent af heildareignum þeirra. Sumir af stærstu sjóðum landsins eru komnir mjög nálægt þessu þaki í dag, sem veldur því að þeir eiga erfitt um vik við fjárfestingar sínar á erlendum mörkuðum, en hlutfall erlendra eigna LSR og Lífeyrissjóðs verslunarmanna var komið í liðlega 42 prósent um mitt þetta ár.

Samkvæmt heimildum Innherja var Már, sem gegndi embætti seðlabankastjóra á árunum 2009 til 2019, nýlega fenginn af ráðuneytinu til þess að skoða ýmsar tillögur í tengslum við endurskoðun á löggjöfinni þannig að lífeyrissjóðirnir geti haldið áfram að fjárfesta utan landsteina.

Þar kemur meðal annars til greina að hækka fjárfestingaþakið í áföngum – Landssamtök lífeyrissjóða hafa sagt nauðsynlegt að hækka það sem fyrst í 65 prósent – eða jafnvel að afnema það með öllu. Þá er einnig til skoðunar hvort gera eigi greinarmun á samsetningu erlendra eigna lífeyrissjóðanna eftir seljanleika þeirra, hvort um sé að ræða til dæmis hlutabréf eða skuldabréf, við ákvörðun um að mögulega rýmka fjárfestingarheimildir sjóðanna erlendis.

Gert er ráð fyrir að vinnu Más fyrir ráðuneytið muni ljúka snemma á næsta ári en hann fundar þessa dagana með lífeyrissjóðum og ýmsum öðrum haghöfum vegna málsins.

Í byrjun september á þessu ári skilaði Már af sér skýrslu fyrir Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu sem hópur þingmanna hafði óskað eftir að yrði unnin.

Í niðurstöðum skýrslunnar kom meðal annars fram að hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna þyrfti á komandi árum að verða á bilinu 40 til 50 prósent til að ná æskilegri áhættudreifingu og draga úr ruðningsáhrifum innlendra fjárfestinga sjóðanna. Þá sagði Már í skýrslunni að skoða þyrfti hvort gera ætti breytingar á hámarki gjaldmiðlaáhættu lífeyrissjóða þar sem núverandi 50 prósenta hámark virðist hamla erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna áður en æskilegu hlutfalli erlendra eigna er náð. Ástæðan sé ótti lífeyrissjóða sem eru komnir tiltölulega nærri hámarkinu að lækkun á gengi krónunnar fleyti þeim yfir það á sama tíma og torvelt og kostnaðarsamt er hér á landi að fá gengisvarnir.

Ásgeir Jónsson, núverandi seðlabankastjóri, hefur áður sagst vera hlynntur því að hækka 50 prósenta þakið þegar aðstæður leyfa. Þjóðarbúið þurfi þó að skila meiri viðskiptaafgangi.

„Þegar ferðaþjónustan kemur til baka af fullum krafti þá verða lífeyrissjóðirnir hins vegar að fara auka við erlendar fjárfestingar í eignasöfnum sínum,“ útskýrði seðlabankastjóri í samtali við Innherja um miðjan nóvember.

Erlendar eignir lífeyrissjóða námu 2.334 milljörðum króna í lok október. Hlutfallið af heildareignum sjóðanna nam 35,5 prósentum og hefur aldrei verið hærra.

Fram kom í Peningamálum Seðlabankans, sem birtust síðasta mánuði, að hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða hafi numið tæplega 55 milljörðum króna á fyrstu tíu mánuðum ársins sem er svipað og á árinu 2020.

Forsvarsmenn sumra af helstu lífeyrissjóðum landsins hafa á undanförnum mánuðum og misserum kallað eftir því að lögbundið hámark á erlendar fjárfestingar sjóðanna verði endurskoðað. Þakið sé orðið íþyngjandi fyrir lífeyrissjóðina sem hafa síaukna fjárfestingaþörf – hún er talin vera nettó um 300 milljarðar á ári – en takmarkað svigrúm til að ráðstafa fénu erlendis.

Í fyrra þegar faraldurinn stóð sem hæst samþykktu lífeyrissjóðirnir að gera samkomulag við Seðlabankann þess efnis að gera hlé á gjaldeyriskaupum sínum vegna fjárfestinga erlendis yfir um sex mánaða tímabil.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×