Handbolti

Gaupi fór í Kringluna og fékk svar við stóru spurningunni um þjóðaríþrótt Íslendinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Guðmundsson ræðir við einn viðmælanda sinn í Kringlunni.
Guðjón Guðmundsson ræðir við einn viðmælanda sinn í Kringlunni. S2 Sport

Árangur íslenska karlalandsliðsins í handbolta á Evrópumótinu í janúar vakti auðvitað mikla athygli hér á landi en þar náðu Strákarnir okkar í handboltanum enn á ný að sameina þjóðina.

Guðjón Guðmundsson skellti sér í Kringluna í nýjasta Eina-innslagi sínu í Seinni bylgjunni og fékk þar svar við stóru spurningunni: Er handboltinn þjóðaríþrótt okkar Íslendinga?

Gaupi hitti þá fjölda fólks á öldum aldri og spurði þó þessarar spurningar.

Margir svöruðu spurningunni játandi en aðrir nefndu aðrar íþróttir. Auðvitað leiðandi spurning hjá handboltafrömuðinum en svörin oft skemmtileg.

„Það fer ekki á milli mála Gaupi minn. Að sjálfsögðu. Þetta er bara eitthvað sem allir Íslendingar hafa ástríðu fyrir. Við trúum á strákana okkar,“ sagði einn.

„Nei, fótboltinn,“ svaraði annar.

„Já ég myndi halda það. Ég fylgist með handboltanum og með þér líka,“ svaraði sá þriðji.

„Já ég held það að hann sé orðin það aftur. Fótboltinn var orðinn það á tímabili en ég held að það sé komið til baka,“ svaraði einn í viðbót.

Það kom ekkert Gaupa úr jafnvægi ekki einu sinni þegar hann hitti á fólk sem hafði engan áhuga á íþróttum.

„Ég hef bara litla sem enga skoðun á íþróttum,“ svaraði einn þeirra en Gaupi spurði hvernig stæði á því? „Það er bara ekki mitt áhugamál,“ svaraði þessi litli íþróttaáhugamaður. „Það er ekkert hægt að lækna þig við því,“ sagði þá Gaupi eins og honum er einum lagið og fékk viðmælanda sinn til að hlæja.

Gaupi fékk líka að vita meira um viðmælendur sína og skoðanir þeirra um handbolta. Hermann Gunnarsson var í miklu uppáhaldi hjá einum. „Mér fannst Hemmi Gunn alltaf djöfull góður. Ég sá Frakkaleikinn þar sem hann skoraði átján eða nítján mörk.“

Það má sjá fleiri skemmtileg svör hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Gaupi og þjóðaríþrótt okkar Íslendinga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×