Formúla 1

Segir það ósanngjarnt að banna rússnesku íþróttafólki að keppa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rússneski ökuþórinn Daniil Kvyat segir það ósanngjarnt að landar hans fái ekki að í sínum íþróttum.
Rússneski ökuþórinn Daniil Kvyat segir það ósanngjarnt að landar hans fái ekki að í sínum íþróttum. Rudy Carezzevoli - Formula 1/Formula 1 via Getty Images

Rússneski ökuþórinn Daniil Kvyat segir það ósanngjarna lausn að banna rússnesku íþróttafólki að keppa í sinni íþrótt vegna innrásar þjóðarinnar í Úkraínu.

Þessi fyrrverandi Formúlu 1 ökuþór segir að íþróttir eigi að halda sig utan við pólitík og að sú aðgerð að banna rússnesku íþróttafólki að keppa í sinni íþrótt fari gegn hugmyndafræði íþróttahreyfingarinnar um samstöðu og frið.

„Ég vona innilega að við finnum friðsæla lausn á ástandinu í Úkraínu og að við getum öll lifað í friði,“ sagði Kvyat.

„Hverjir aðrir en við íþróttamennirnir eigum að hjálpa til við að koma fólki af mismunandi þjóðernum saman á komandi tímum?“

Alþjóðakappaksturssambandið FIA fundar í kvöld og mun þar ræða stöðu mála í Úkraínu. Sambandið mun einnig ákveða hvort að eini rússneski ökumaðurinn í Formúlu 1, Nikita Mazepin, fái að keppa fyrir Haas á komandi tímabili.

Rússneska kappakstrinum sem átti að fara fram 25. september næstkomandi hefur nú þegar verið aflýst.

Þá hefur Haas-liðið einnig fjarlægt merkingar frá rússneska styrktaraðilanum Uralkali, en Dmitri Mazepin, pabbi Nikita Mazepin, á hlut í fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×