Skoðun

Opið bréf til borgar­stjóra

Eyrún Helga Aradóttir skrifar

Stjórnir foreldrafélaga Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla mælast sameiginlega til þess að borgaryfirvöld bregðist hratt við húsnæðisvanda skólanna með því að byggja við hvern þeirra fyrir sig og vernda þannig skólagerð þeirra, skólahverfin og hverfamenningu. 

Á síðustu árum hafa stjórnendur skólanna unnið í samstarfi við borgina við að móta framtíðarstefnu um húsnæðismál skólanna. Á þeim tíma hefur nemendum skólanna fjölgað hratt og yfirflæðið verið leyst með færanlegum kennslustofum, sem er skammtímalausn. Ljóst er af þéttingu byggðar að nemendum mun áfram fjölga í skólahverfunum. Húsnæðið ber ekki fjölda nemenda í dag, dugar ekki til að kennsla í list- og verkgreinum sé í samræmi við viðmiðunarstundaskrá og kemur niður á aðstöðu nemenda. 

Innviðir skólanna eru löngu sprungnir og lengi mætti telja hvernig aðstaða nemenda, kennara og annarra starfsmanna hefur verið útþynnt á undanförnum árum. Íþróttaaðstaða fyrir nemendur er ófullnægjandi, aðgangur að öðrum íþróttahúsum ótraustur og ferðatími barnanna kemur niður á námstíma þeirra. Frístund fyrir yngstu börnin er í lélegu húsnæði á erfiðum stað fyrir mörg börn. 

Borgarráð samþykkti fimmtudaginn 4. nóvember 2021 að vísa þremur sviðsmyndum um „framtíðarskipan skóla í Laugarnes- og Langholtshverfi“ til skóla- og frístundasviðs sem á aftur að leiða umsagnarferli í skólasamfélaginu. Ein sviðmyndanna verður að lokum gerð að tillögu til borgarstjóra og borgarráðs. 

  1. Skólarnir haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla. 
  2. Færa 5-6.bekk úr Laugarnesskóla yfir í Laugalækjarskóla og því byggt við hann. 
  3. Byggður verði nýr safn-unglingaskóli í Laugardal en þá yrðu núverandi skólarnir þrír fyrir nemendur í 1-7. bekk 

Við fögnum því að fá loksins að taka samtalið um uppbyggingu skólanna okkar og viljum í því samhengi koma eftirfarandi skoðun okkar á framfæri: 

  • Í skýrslunni vantar upplýsingar um kostnaðaráætlun sviðsmyndanna og tímaáætlun fyrir uppbyggingu skólanna. 
  • Við viljum vernda og viðhalda skólagerð skólanna okkar sem eiga sér langa og árangursríka sögu. 
  • Stofnun safnskóla á unglingastigi myndi leið til þess að skólagerð þriggja skóla yrði brotin upp og stofna þyrfti nýjan unglingaskóla frá grunni. Breytingin yrði einnig líkleg til að valda uppbroti á rótgrónum skólahverfum. Við greiningu á slíkri sviðsmynd þarf að taka sérstakt tillit til samsetningar byggðar í skólahverfunum. 
  • Staðsetning safnskólans í sviðsmynd 3 er ekki kynnt en í Laugardalnum eru fáir byggingareitir á lausu. Upplýsingar um þessa sviðsmynd eru talsvert frá því að teljast fullnægjandi. 
  • Við viljum sjá framtíðarlausnir sem allra fyrst fyrir skólana okkar sem byggðir eru á sambærilegum grunni og aðrir skólar í borginni byggja á. Uppskipting Laugarnesskóla og tilfærsla 5-6.bekkjar í Laugarlækjarskóla fellur ekki innan þess ramma og myndi færa þá enn fjær því skipulagi sem tíðkast í öðrum skólum borgarinnar. Þrátt fyrir að þessi uppskipting kunni að reynast hlutalausn fyrir hverfið til skamms tíma teljum við langtímaávinninginn afar óljósan og vörum við að ráðast í þá vegferð. 
  • Gæta þarf þess að skólarnir hafi allir nægt rými í sínu nærumhverfi til að geta tekist á við frekari fjölgun í skólahverfunum og mögulega breyttar þarfir um húsnæði til framtíðar. Við höfnum því að skólalóðum verði breytt með óafturkræfum hætti án þess að slíkt verði gert sem hluti af heildstæðri lausn hvers skóla og skólanna í heild. 

Við krefjumst þess að unnið verði hratt að þróun húsnæðismála skólanna okkar enda hefur aðstaða barnanna okkar til náms, frístundar og íþrótta verið þynnt út svo um munar á undanförnum árum og er orðin algjörlega óviðunandi. Við viljum sjá árangur af þessu samtali og við viljum langtímalausnir fyrir börnin í skólahverfunum. 

Höfundur er formaður foreldrafélags Laugarnesskóla. Bréfið er sent fyrir hönd stjórnar Foreldrafélags Langholtsskóla, stjórnar Foreldrafélags Laugalækjarskóla og stjórnar Foreldrafélags Laugarnesskóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×