Innherji

Markaðir rétta úr kútnum, Brim hækkar um meira en 11 prósent

Hörður Ægisson skrifar
Öll félögin á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkuðu í verði í dag en Úrvalsvísitalan var upp um rúmlega 3,6 prósent.
Öll félögin á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkuðu í verði í dag en Úrvalsvísitalan var upp um rúmlega 3,6 prósent. VÍSIR/VILHELM

Eftir einn svartasta dag í Kauphöllinni frá fjármálahruninu 2008 varð mikill viðsnúningur á hlutabréfamörkuðum í dag og hækkaði Úrvalsvísitalan um rúmlega 3,6 prósent eftir að hafa fallið um nærri 6 prósent daginn áður. Öll félögin á aðalmarkaði hækkuðu í verði, mest Brim, en gengi bréfa sjávarútvegsfélagsins hækkaði um 11,5 prósent og hefur virði þess á markaði aldrei verið meira.

Gengi krónunnar, sem hafði fallið nokkuð skarpt í gær vegna óvissunnar eftir innrás Rússa í Úkraínu, rétti einnig úr kútnum og styrkist gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum. Gengisstyrkingin gagnvart Bandaríkjadal nam um 1,75 prósentum og stendur gengið núna í 125,5 krónum.

Þróunin á Íslandi var sú hin sama og á hinum Norðurlöndunum, í Evrópu og á Bretlandi þar sem hlutabréfavísitölur hækkuðu einnig verulega á mörkuðum í dag. Breska vísitalan FTSE-100 hækkaði þannig meðal annars um tæplega 3,8 prósent á meðan EuroFirst-300 hlutabréfavísitalan fór upp um rúmlega 3,2 prósent.

Þær miklu verðhækkanir sem urðu á olíumörkuðum í gær – tunnan af Brent-Norðursjávarolíu fór þá í fyrsta sinn yfir 100 Bandaríkjadali frá árinu 2014 – gengu sumpart til baka í dag. Verðið á Norðursjávarolíu lækkaði þannig um liðlega tvö prósent og stendur núna í um 97 dölum á tunnuna.

Hlutabréfaverð Brims hækkaði sem fyrr segir langsamlega mest í Kauphöllinni, eða um 11,5 prósent í meira en 540 milljóna króna veltu, og stóð gengið í 82,5 krónum á hlut við lokun markaða. Markaðsvirði Brims fór því upp um 16,6 milljarða á markaði í dag – það stendur núna í rúmlega 161 milljarði króna – en hlutabréfaverð félagsins hafði áður hæst farið í 81,5 krónur á hlut í lok nóvember í fyrra.

Fjárfestar sáu einnig gengi bréfa Icelandair rétta verulega úr kútnum í dag, eftir að hafa lækkað um liðlega 9 prósent í gær, en hlutabréfaverð þess hækkaði næst mest allra félaga í Kauphöllinni, eða um rúmlega 7 prósent. Þar á eftir fylgdu fyrirtækin Iceland Seafood, Síldarvinnslan, Reitir og Marel en hlutabréfaverð þeirra hækkaði á bilinu 4,3 til 5,6 prósent í viðskiptum á markaði í dag.

Mikil verðhækkun hlutabréfa Brims kemur í kjölfar þess að félagið skilaði uppgjöri eftir lokun markaða í gær. Rekstrartekjur jukust um nærri 18 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi 2021 og voru samtals 96,3 milljónir evra. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) tvöfaldaðist á milli ára og var samtals 27,7 milljónir evra. Loðnuveiðar settu mark sitt á afkomuna, eftir að stærsta úthlutun loðnukvóta í tvo áratugi fór fram í október, og þá voru tekjufærðar tæplega 20 milljónir evra á síðasta fjórðungi ársins vegna söluhagnaðar aflaheimilda.

Þá kom fram í máli Guðmunar Kristjánssonar, forstjóra Brims, á uppgjörsfundi síðla dags í gær, eins og Innherji fjallaði um fyrr í dag, að ef Vesturlönd muni beita Rússlandi refsiaðgerðum sem feli það í sér að það verði lokað fyrir afurðir þeirra inn á markaði í Evrópu og Bandaríkjunum þá muni það að öllum líkindum þýða að það „verði meiri eftirspurn eftir okkar fiski.“

Sjávarútvegsfyrirtækið seldi fiskafurðir til Úkraínu og Hvíta-Rússlands fyrir samanlagt um 20 milljónir evra, jafnvirði tæplega 3 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári, sagði Guðmundur á uppgjörsfundinum en hann ræddi þar meðal annars möguleg áhrif innrásar Rússlands í Úkraínu fyrir markaði með sjávarafurðir fyrirtækisins.

Guðmundur sagðist á uppgjörsfundinum ekki þora að spá fyrir um hvaða áhrif „þetta brölt“ – og vísaði þá til stríðsátakanna í Úkraínu – muni hafa á markaðslönd félagsins en að Brim væri vel undirbúið, meðal annars með góðar tengingar á markaði í Asíu og Evrópu, og þá væri almennt mikil eftirspurn eftir fiski og villtu sjávarfangi. „Þannig að í augnablikinu erum við ekki áhyggjufull,“ sagði Guðmundur, enda þótt hann viðurkenndi að vera „hugsi“ yfir ástandinu á mörkuðum.

Evrópusambandið samþykkti í nótt refsiaðgerðir gegn Rússum, sem verða kynntar frekar síðar í dag, en þær beinast einkum gegn fjármálakerfi landsins, orku- og samgöngugeiranum, útflutningi og þá verður útilokað fyrir rússneska framámenn að fá vegabréfsáritanir. ESB hefur sagt að mögulega verði gripið til hertari aðgerða síðar meir. Þá eru leiðtogar sambandsins sagðir verið að undirbúa aðgerðir sem miða að því að frysta eigur Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra landsins, í Evrópu.


Tengdar fréttir

Versti dagur í langan tíma

Icelandair hefur lækkað mest íslenskra félaga á rauðum degi á hlutabréfamarkaði í dag. Hækkandi olíuverð bítur flugfélög - en mun væntanlega einnig bíta íslenska neytendur, þegar það ratar inn í bensínverð.

Hluta­bréfa­markaðir rauðir en olía og gull rýkur upp

Verðið á Brent Norður­sjáv­ar­ol­íu er komið upp fyrir hundrað Bandaríkjadali á tunnuna í fyrsta skipti frá árinu 2014 í kjölfar innrásar Rússa inn í Úkraínu sem talið er að geti haft áhrif á framboð olíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×