Innherji

Forstjóri Brims: „Meiri eftirspurn eftir okkar fiski“ ef það verður lokað á Rússland

Hörður Ægisson skrifar
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, en á uppgjörsfundi í gær sagðist hann telja að útistandandi viðskiptakröfur félagsins gagnvart mörkuðum í Úkraínu og Hvíta-Rússlandi næmu samtals um 700 til 1.150 milljónum króna.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, en á uppgjörsfundi í gær sagðist hann telja að útistandandi viðskiptakröfur félagsins gagnvart mörkuðum í Úkraínu og Hvíta-Rússlandi næmu samtals um 700 til 1.150 milljónum króna.

Sjávarútvegsfyrirtækið Brim seldi fiskafurðir til Úkraínu og Hvíta-Rússlands fyrir samanlagt um 20 milljónir evra, jafnvirði tæplega 3 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. „Við vitum að þeir [Úkraínumenn] munu halda áfram að borða fisk þrátt fyrir stríðsátökin. Þetta er ódýrasti og besti maturinn sem þeir fá.“

Þetta kom fram í máli Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims, á uppgjörsfundi félagsins sem fór fram eftir lokun Kauphallarinnar í gær þar sem hann ræddi meðal annars möguleg áhrif innrásar Rússlands í Úkraínu fyrir markaði með sjávarafurðir fyrirtækisins.

Spurður á fundinum hversu mikil áhætta félagsins væri gagnvart mörkuðum í stríðshrjáðum löndum í Austur-Evrópu svaraði Guðmundur því til að Brim væri með „tiltölulegar litlar stöður“ ef horft væri til Úkraínu og Hvíta-Rússlands. Taldi hann að útistandandi viðskiptakröfur fyrirtækisins í þeim löndum væru samtals um 5 til 8 milljónir evra, eða jafnvirði um 700 til 1.150 milljónir íslenskra króna.

Heildartekjur Brims, sem er með markaðsvirði upp á 155 milljarða króna, jukust um liðlega þriðjung á milli ára í fyrra og námu samtals um 58 milljörðum króna. Fyrirtækið skilaði rúmlega 11 milljarða króna hagnaði.

Guðmundur sagðist á uppgjörsfundinum ekki þora að spá fyrir um hvaða áhrif „þetta brölt“ – og vísaði þá til stríðsátakanna í Úkraínu – muni hafa á markaðslönd félagsins en að Brim væri vel undirbúið, meðal annars með góðar tengingar á markaði í Asíu og Evrópu, og þá væri almennt mikil eftirspurn eftir fiski og villtu sjávarfangi. „Þannig að í augnablikinu erum við ekki áhyggjufull,“ sagði Guðmundur, enda þótt hann viðurkenndi að vera „hugsi“ yfir ástandinu á mörkuðum.

Við vitum að þeir [Úkraínumenn] munu halda áfram að borða fisk þrátt fyrir stríðsátökin. Þetta er ódýrasti og besti maturinn sem þeir fá.

Þá kom fram í máli forstjórans að ef Vesturlönd muni beita Rússlandi refsiaðgerðum sem feli það í sér að það verði lokað fyrir afurðir þeirra inn á markaði í Evrópu og Bandaríkjunum þá muni það að öllum líkindum þýða að það „verði meiri eftirspurn eftir okkar fiski,“ sagði Guðmundur.

Evrópusambandið samþykkti í nótt refsiaðgerðir gegn Rússum, sem verða kynntar frekar síðar í dag, en þær beinast einkum gegn fjármálakerfi landsins, orku- og samgöngugeiranum, útflutningi og þá verður útilokað fyrir rússneska framámenn að fá vegabréfsáritanir. ESB hefur sagt að mögulega verði gripið til hertari aðgerða síðar meir.

Heimild: Fjárfestakynning Brims fyrir árið 2021.

Áður en Rússland bannaði innflutning matvæla til landsins, meðal annars frá Íslandi vegna stuðnings við refsiaðgerðir ESB og Bandaríkjanna eftir innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014, þá var það einn mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir. Á uppgjörsfundinum í gær kom fram í kynningu Guðmundar að rúmlega 17 prósent alls útflutnings Brims hefði farið til Rússlands árið 2014, sem hefði þá verið stærsti markaður félagsins. Eftir innflutningsbann Rússa hefði sá markaður hins vegar alveg dottið niður.

Á öllu síðasta ári seldu Íslendingar sjávar- og eldisafurðir til Rússlands fyrir samtals aðeins um 500 milljónir króna, borið saman við 219 milljónir 2020. Til samanburðar voru útflutningsverðmati sjávarafurða til Rússlands um 27 milljarðar króna á árinu 2014.

Hlutabréfaverð Brims hefur hækkað um rúmlega 7 prósent í um 230 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag og stendur nú í 79,5 krónum á hlut. Gengi bréfa félagsins hefur hækkað um meira en 40 prósent eftir að Hafrannsóknarstofnun ráðlagði í byrjun október veiðar á allt að 904 þúsund tonnum af loðnu fyrir komandi vertíð.


Tengdar fréttir

Allar líkur á mögnuðu ári í sjávarútveginum

Hærri verð, áður vanmetin loðnuúthlutun og örlítið hagstæðari kostnaðarhlutföll eru helstu ástæður þess að greinendafyrirtækið Jakobsson Capital hefur hækkað verðmat sitt á Brim um 17 prósent, eða úr 704 milljónum evra í 825 milljónir evra, jafnvirði um 122 milljarða íslenskra króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×