Viðskipti erlent

Hluta­bréfa­markaðir rauðir en olía og gull rýkur upp

Eiður Þór Árnason skrifar
Verðbréfasali í Frankfurt. Innrás Rússa hefur haft mikil áhrif á markaði víða um heim.
Verðbréfasali í Frankfurt. Innrás Rússa hefur haft mikil áhrif á markaði víða um heim. Getty/Arne Dedert

Verðið á Brent Norður­sjáv­ar­ol­íu er komið upp fyrir hundrað Bandaríkjadali á tunnuna í fyrsta skipti frá árinu 2014 í kjölfar innrásar Rússa inn í Úkraínu sem talið er að geti haft áhrif á framboð olíu.

Hlutabréfamarkaðir eru rauðir víðast hvar í dag og náði rússneska rúblan nýjum lægðum. Þá eru markaðir í Rússlandi og Úkraínu í frjálsu falli.

Á sama tíma hafa fjárfestar leitað í gull, olíu og ríkisskuldabréf en gullverð hefur ekki verið hærra í meira en ár. Íslenska úrvalsvísitalan, OMXI10, hefur lækkað um og yfir 5% í fyrstu viðskiptum dagsins. Nær öll félög í á aðalmarkaði Kauphallarinnar hafa lækkað um meira en 1%. Hlutabréf í Icelandair og Marel hafa lækkað mest í Kauphöllinni eða um 5,48% og 6,74%.

Rússneska MOEX-vísitalan hefur lækkað yfir 29% í dag en hlutabréf í kauphöllinni í Moskvu lækkuðu yfir 10% við opnun í morgun. Rússneski seðlabankinn fyrirskipaði þá bann við skortsölu og milliliðalausum verðbréfaviðskiptum.

Þýska DAX-hlutabréfavísitalan  hefur lækkað um 4,40% það sem af er degi. Viðskipti voru stöðvuð í PFTS kauphöllinni í Úkraínu í morgun.

S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 1,84%. Rúblan veiktist um nærri 7% í 86,98 gagnvart Bandaríkjadal og hefur verið aldrei verið lægri. Hún hækkaði upp í 84,27 eftir gjaldeyrisaðgerðir rússneska seðlabankans.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×