Körfubolti

Aðeins tveir eldri hafa skorað fjörutíu stig í úrvalsdeildarleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Everage Lee Richardson dansar hér með boltann í leiknum á móti Tindastól í gærkvöldi.
Everage Lee Richardson dansar hér með boltann í leiknum á móti Tindastól í gærkvöldi. Vísir/Hulda Margrét

Blikinn Everage Lee Richardson fór á kostum í sigri Breiðabliks á Tindastól í Subway-deild karla í körfubolta í gærkvöldi.

Everage skoraði 44 stig í leiknum sem er það mesta sem leikmaður hefur skorað í deildinni á þessu tímabili og það mesta sem íslenskur leikmaður hefur skorað í einum leik síðan að Brynjar Þór Björnsson skoraði 48 stig fyrir Tindastól á móti Breiðabliki í Smáranum 9. desember 2018.

Everage kom sér líka í hóp efstu manna á öðrum lista því hann hélt upp á 36 ára afmæli sitt á Þorláksmessu. Aðeins tveir eldri leikmenn hafa skorað meira en fjörutíu stig í einum leik í sögu úrvalsdeildar karla.

Everage náði ekki meti Darrel Keith Lewis frá 2014 eða gamla metinu hans Brenton Joe Birmingham frá 2009.

Í gær var Everage 36 ára, eins mánaða og fimmtán daga.

Methafinn Lewis var 38 ára, níu mánaða og átján daga þegar hann skoraði 45 stig fyrir Tindastól á móti Grindavík 1. desember 2014.

Brenton var 36 ára, þriggja mánaða og eins dags þegar hann skoraði 48 stig fyrir Grindavík á móti Snæfelli 1. mars 2009.

Brenton átti þetta met í fimm ár en hann hafði þá slegið eins árs gamalt met Nemanja Sovic sem var rúmlega 31 árs gamall þegar hann skoraði yfir fjörutíu stig í leik.

Sturla Örlygsson (fyrir Þór Ak. 1991) og Valur Snjólfur Ingimundarson (fyrir Tindastól 1992) voru aftur á móti þeir fyrstu til að skora yfir fjörutíu stig í einum leik eftir að þeir héldu upp á þrítugsafmælið sitt.

  • Elstu leikmenn til að skora fjörutíu stig í sögu úrvalsdeildar karla:
  • 38 ára - Darrel Keith Lewis, 45 stig fyrir Tindastól 1. desember 2014
  • 36 ára - Brenton Joe Birmingham, 48 stig fyrir Grindavík 1. mars 2009
  • 36 ára - Everage Lee Richardson, 44 stig fyrir Breiðablik 7. febrúar 2022
  • 34 ára - Páll Axel Vilbergsson, 45 stig fyrir Skallagrím 7. október 2012
  • 32 ára - Logi Gunnarsson, 41 stig fyrir Njarðvík 22. nóvember 2013



Fleiri fréttir

Sjá meira


×