Skoðun

Hverjum má fórna?

Agnar Már Másson skrifar

Margir biðu spenntir eftir tilkynningum stjórnvalda um nýja reglugerð um samkomutakmarkanir. Mýgrútur þingmanna hafði hoppað í fjölmiðla og sagt frá sínum skoðunum á málinu og bjuggust flestir við einhverjum afléttingum á öllum sviðum mannlífs og vonuðum við flest eftir því að við myndum brátt fá að sjá glitta í okkar venjulega líf handan við sjóndeildarhringinn.

Menntskælingar biðu allir spenntir eftir því að félagslífið yrði venjulegt og aftur væri hægt að sækja á böll og aðra viðburði tengda félagslífinu. Framhaldsskólanemum var því illa brugðið þegar við sáum að í næsta mánuði verðafjöldatakmarkanir bundnar við 50 manns á standandi viðburðum.

Leiðir þetta í ljós að það var einfaldlega ekki gert ráð fyrir menntaskólaböllum eða öðrum viðburðum tengdum menntaskólalífi, þrátt fyrir það að allmargir menntskælingar, ég þar með talinn, létu mikið fyrir sér fara hvað þessi málefni varðar nú í haust. Stjórnvöldum yfirsást að huga að hagsmunum framhaldsskólanema og virtu að vettugi þá staðreynd að félagslíf í öllum menntaskólum landsins hefur verið í skötulíki undanfarin tvö ár. Undanfarna mánuði hafa nemendur þurft að bera grímur í tímum og öll samvera á skólatíma verið mjög takmörkuð.

Við í stjórn Framtíðarinnar, málfunda- og nemendafélags MR, ætluðum okkur að halda okkar fyrsta ball um miðjan febrúarmánuð og þó að við værum ekki of bjartsýn um að það yrði hægt bjuggumst við ekki við slíkri hunsun frá yfirvöldum. Nemendur og stjórnendur annarra nemendafélaga hafa nú þegar gert sínar skoðanir opinberar varðandi nýsamþykktar afléttingar og eiga það sammerkt að þykja þær ósanngjarnar í garð menntaskólanema.

Meginþorra menntskælinga er tiltölulega sama um sitjandi viðburði eins og sinfóníuog/eða Bubbatónleika í Hörpu. Þeir völdu flestir framhaldsskóla að stórum hluta til út frá félagslífinu sem í skólunum ríkir. Þessi þrjú ár áttu jú að vera með þeim skemmtilegustu í okkar lífi. Hvað er MR án félagslífs annað en þungt nám í gömlum húsakynnum?

Framhaldsskólanemum finnst fram hjá sér gengið og þeir virtir að vettugi af stjórnvöldum. Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir okkur?

 Höfundur er forseti nemendafélagsins Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×