Handbolti

Ánægðir með Elvar: „Hann kemur mér svo á óvart, þessi drengur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar Ásgeirsson fagnar einu fjögurra marka sinna gegn Króatíu.
Elvar Ásgeirsson fagnar einu fjögurra marka sinna gegn Króatíu. getty/Sanjin Strukic

Þeir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Róbert Gunnarsson voru ánægðir með frammistöðu Elvars Ásgeirssonar í leiknum gegn Króatíu í gær.

Þegar staðan var 15-20, Króötum í vil, hrökk Elvar í gang og átti stóran þátt í því að Íslendingar skoruðu sjö mörk gegn einu og náðu forystunni, 22-21. Króatía skoraði svo síðustu tvö mörk leiksins og vann nauman sigur, 22-23.

Ásgeir Örn og Róbert mærðu Elvar fyrir frammistöðu hans í EM-hlaðvarpi Seinni bylgjunnar.

„Við verðum að hrósa Elvari fyrir síðasta korterið. Hann var virkilega öflugur og hóf endurkomuna. Hann fór allt í einu að keyra, tók eitt hraðaupphlaupsmark og skoraði svo með gólfskoti. Það kom kraftur með honum. Ég held að hann hafi líka drifið Orra [Frey Þorkelsson] með sér,“ sagði Ásgeir Örn.

„Það kom mikill kraftur vinstra megin á vellinum sem við þurftum á að halda. Þetta var frábær tímasetning og hann fær stóran plús fyrir það.“

Elvar sat uppi í stúku í öllum þremur leikjunum í riðlakeppninni en eftir að lykilmenn fóru að smitast af kórónuveirunni, einn af öðrum, var Mosfellingnum hent í djúpu laugina. Fyrir EM hafði hann ekki spilað fyrir íslenska landsliðið en það er ekki að sjá á frammistöðu hans á mótinu.

„Þetta er þriðji landsleikurinn hans og hann er búinn að byrja þá alla. Þetta er bara einsdæmi. Hann átti líka stórkostlega línusendingu á Elliða í byrjun leiks. Hann kemur mér svo á óvart, þessi drengur. Hann er með gegnumbrot, sendingar og getur stokkið upp. Hann er með þetta allt saman,“ sagði Róbert.

Elvar, sem leikur með Nancy í frönsku úrvalsdeildinni, skoraði fjögur mörk í leiknum í gær og gaf fjórar stoðsendingar.

Hlusta má á EM-hlaðvarp Seinni bylgjunnar í spilaranum hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.