Umfjöllun: Ísland - Króatía 22-23 | Hetjuleg barátta en króatíska grýlan lifir enn

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Íslensku varnarmennirnir taka á Tin Lucin.
Íslensku varnarmennirnir taka á Tin Lucin. getty/Sanjin Strukic

Ísland tapaði fyrir Króatíu, 22-23, í þriðja leik sínum í milliriðli II á Evrópumótinu í handbolta í dag.

Króatar höfðu að litlu að keppa fyrir leikinn á meðan Íslendingar áttu góða möguleika á að komast í undanúrslit. Króatía er þó stórhættulegt lið sem gerði Íslandi enn og aftur skráveifu á handboltavellinum. Liðin hafa mæst níu sinnum á stórmótum, Króatar unnið átta leiki og einu sinni hefur orðið jafntefli.

Þrátt fyrir tapið í dag á Ísland enn möguleika á að komast í undanúrslit. Íslendingar þurfa að vinna Svartfellinga á miðvikudaginn og treysta á að Danir vinni Frakka.

Íslenska liðið lék á löngum köflum vel í leiknum í dag, sérstaklega í vörninni, en slök byrjun á seinni hálfleik varð því að falli. Króatar náðu þá fimm marka forskoti og virtust ætla að sigla sigrinum örugglega í höfn. 

En Íslendingar gáfust þó ekki upp og komu sér inn í leikinn á ný með mikilli baráttu og vel útfærðum sjö gegn sex sóknarleik. Þeir skoruðu sjö mörk gegn einu og breyttu stöðunni úr 15-21 í 22-21. Króatía skoraði hins vegar tvö síðustu mörk leiksins og unnu með minnsta mun, 22-23.

Ivan Pesic reyndist okkar mönnum erfiður en hann varði sextán skot, eða 42 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Viktor Gísli Hallgrímsson varði fjórtán skot í íslenska markinu (fjörutíu prósent).

Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk. Sigvaldi Guðjónsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu fimm mörk hvor og Elvar Ásgeirsson fjögur. Tin Lucin skoraði sex mörk fyrir Króatíu og Ivan Cupic og Ivan Martinovic sitt hvor fimm mörkin.

Viktor Gísli og vörnin í ham

Íslenska vörnin var mögnuð í fyrri hálfleik, sérstaklega fyrstu tuttugu mínúturnar. Þá hélt Viktor Gísli uppteknum hætti frá síðasta leik. Hann varði fjögur af fyrstu fimm skotum Króata og alls tíu skot í fyrri hálfleik, eða 53 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

Eftir jafnar upphafsmínútur náði íslenska liðið heljartaki á leiknum, spilaði af mikilli yfirvegun í sókninni, keyrði hraðaupphlaup þegar tækifæri gáfust og komust tvisvar fimm mörkum yfir.

Króatar reyndu allt hvað þeir gátu, skiptu tvisvar um vörn og bættu sjöunda sóknarmanninum við en Íslendingar stóðu allt af sér.

Króatíska liðinu gekk betur í sókninni síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks, aðallega að sækja vítaköst sem Cupic kláraði af öryggi.

Króatar skoruðu fimm af síðustu sjö mörkum fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik því, 12-10, Íslendingum í vil. Góð staða en hefði getað verið mun betri.

Pesic var góður í króatíska markinu og varði átta skot í fyrri hálfleik (fjörutíu prósent). Ómar Ingi dró íslenska sóknarvagninn og skoraði fimm af tólf mörkum liðsins í fyrri hálfleik og gaf tvær stoðsendingar. Viggó Kristjánssyni tókst ekki að fylgja eftir frábærum leik gegn Frökkum og klikkaði á öllum sex skotunum sem hann tók í leiknum.

Slæmi kaflinn

Króatía skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks og minnkaði muninn í eitt mark, 12-11.

Króatar byrjuðu seinni hálfleikinn betur, skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkum hans og komust yfir, 13-14, í fyrsta sinn síðan í stöðunni 1-1. Sigvaldi jafnaði í 14-14 en þá komu fimm króatísk mörk i röð.

Króatíska vörnin var gríðarlega öflug í upphafi seinni hálfleiks og dró tennurnar úr íslensku sóknarmönnunum. Þá hélt Pesic áfram að verja. Á meðan gekk sóknarleikur Króatíu mun betur en í fyrri hálfleik.

Guðmundur Guðmundsson reyndi allt hvað hann gat, tók tvö leikhlé og setti sjöunda sóknarmanninn inn á, en fátt beit á króatísku vörnina.

Endurkoma í boði Elvars og Orra

En þegar öll sund virtust lokuð í stöðunni 15-20 kom frábær kafli hjá íslenska liðinu. Hinir óreyndu Elvar og Orri fóru fyrir íslenska liðinu og skoruðu næstu sjö mörk þess. Á meðan skoraði Króatía aðeins eitt mark þegar boltinn skrúfaðist óheppilega undir Viktor Gísla.

Orri kom Íslandi yfir, 22-21, og okkar menn fengu tvö tækifæri til að komast tveimur mörkum yfir. Pesic varði fyrst neyðarskot Elvars eftir langa sókn og svo kæruleysislega vippu Elliða Snæs Viðarssonar af línunni.

Veron Nacinovic jafnaði fyrir Króatíu, 22-22. Ísland fór í sókn, Ómar Ingi opnaði gott færi fyrir Elvar sem skaut framhjá. Ante Gadza kom svo Króötum yfir, 22-23, þegar hann braust í gegnum íslensku vörnina.

Íslendingar höfðu ágætis tíma til að jafna en sóknin rann út í sandinn, Króatar náðu að brjóta og lokaskot Elvars fór í varnarvegginn. Lokatölur 22-23, Króatíu í vil.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.