„Við erum að lenda eftir Frakkaleikinn enda var hann ótrúlegur. Þvílíkt gaman hvað við náðum vel saman og baráttan þegar mest á reyndi,“ sagði Teitur fyrir æfingu liðsins í gær.
„Lykillinn að þessu hjá okkur er liðsheildin og menn þurfa að vera klárir. Við vitum að við erum að spila fyrir íslensku þjóðina og menn klæjar í að koma inn á. Menn ætla svo að nýta sénsinn þegar hann kemur. Þegar allir eru á sömu blaðsíðu þá gengur vel. Það er ólýsanlegt að fá að hlaupa inn á í íslensku treyjunni.“
Íslenska liðið á góðan möguleika á því að tryggja sinn inn í undanúrslit mótsins og þeir eru ekkert orðnir saddir.
„Alls ekki. Við erum í góðri stöðu núna og er undir okkur komið að halda rétt á spilunum og gera það mesta úr þessu. Það er ekkert klárt og margt getur enn gerst en við ætlum að fókusa bara á næsta leik.“