Í A-riðli mættust Danmörk og Norður-Makedónía. Það verður seint hægt að segja að leikurinn hafi verið jafn og spennandi, Danir leiddu með fjórum í hálfleik og unnu leikinn með 10 marka mun, lokatölur 31-21. Niclas Vest Kirkeløkke var markahæstur í danska liðinu með 9 mörk.
Danmörk endar á toppi A-riðils með fullt hús stiga á meðan Norður-Makedónía rekur lestina án stiga.
Í C-riðli mættust Frakkland og Serbía í leik sem var einkar ójafn framan af. Frakkar leiddu með 9 marka mun í hálfleik, staðan þá 16-7. Á meðan Frakkarnir slökuðu á klónni í síðari hálfleik gengu Serbarnir á lagið og munurinn kominn niður í fjögur mörk er leiktíminn rann út, lokatölur 29-25. Kentin Mahe var markahæstur hjá Frakklandi með 6 mörk.
Frakkland vinnur C-riðil með fullt hús stiga á meðan Serbía situr í 3. sæti með 2 stig.
Mest spennandi leikur kvöldsins var leikur Tékklands og Svíþjóðar í E-riðli. Svíar þurftu stig til að komast áfram í milliriðla á meðan Tékkland þurfti sigur. Leikurinn var einkar jafn frá upphafi til enda og spennustigið hátt.
Svíar tóku snemma forystuna en náðu aldrei að hrista Tékkana af sér. Mest náði sænska liðið þriggja marka forystu en alltaf komu Tékkarnir til baka. Lokamínúturnar spiluðust þannig að Svíþjóð komst yfir og Tékkland jafnaði, þannig fór leikurinn fram og til baka allt þangað til hann var flautaður af og staðan var 27-27.
Jafnteflið dugði Svíþjóð til að skríða áfram í milliriðla en bæði lið enduðu með 3 stig.
Að lokum komst Noregur í milliriðla eftir sex marka sigur á Litáen, lokatölur 35-29. Norðmenn enda í 2. sæti F-riðils með fjögur stig en Litáen tapaði öllum þremur leikjum sínum.