Þórður Már Jóhannesson sagði af sér sem stjórnarformaður Festi eftir að Vítalía steig fram í viðtali. Greindi hún frá meintu kynferðisofbeldi af hálfu þriggja manna í heitum potti í sumarbústaðaferð árið 2020.
Þórður hafði áður verið bendlaður við málið en sagði ekki af sér fyrr en að Vítalía steig fram í viðtalinu.
Í tilkynningu frá stjórn Festi til kauphallar segir að umrætt mál hafi verið litið alvarlegum augum af stjórninni þegar fyrstu fregnir af því bárust. Var það tekið til skoðunar innan stjórnarinnar í samræmi við lög, samþykktir og reglur félagsins.
„Frá upphafi var ljóst að innan þessa ramma hafði stjórn lítið rými til að bregðast við. Þegar málið varð opinbert með afgerandi hætti með áðurnefndu viðtali í byrjun janúar sagði fyrrverandi stjórnarformaður af sér,“ segir í tilkynningunni.
Segja það skyldu félagsins að breytast með samfélaginu
Þar segir einnig að nú sé ljóst að endurskoða þurfi starfsreglur stjórnar.
„Að fenginni þessari reynslu er það mat stjórnar Festi að þörf sé á að endurskoða starfsreglur stjórnar. Markmið þeirrar endurskoðunnar er að bæta reglur og gera vinnulag skýrara ef fram koma upplýsingar sem benda til mögulegs vanhæfis stjórnarmanna og hefur stjórn ákveðið að hefja þá vinnu strax. Festi er með skýrar reglur fyrir alla stjórnendur og starfsmenn félagsins og dótturfélaga sem verða lagðar til grundvallar við endurskoðun á starfsreglum stjórnar,“ segir enndremur
Stefnt er að því að niðurstöður endurskoðunarinnar verði kynntar á aðalfundi félagsins, þann 22. mars næstkomandi.
„Stjórn Festi fordæmir allt ofbeldi og telur mikilvægt að hlustað sé á þolendur. Það er skylda okkar að breytast með samfélaginu og í sameiningu eigum við að búa til öruggara umhverfi fyrir okkur öll.“