Viðskipti innlent

Kaup­fé­lag Skag­firðinga tekur Teyg úr sölu og slítur sam­starfi við Arnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kaupfélag Skagfirðinga, sem á og framleiðir Teyg, hefur hætt framleiðslu á drykknum og hefur slitið öllu samstarfi við Arnar Grant.
Kaupfélag Skagfirðinga, sem á og framleiðir Teyg, hefur hætt framleiðslu á drykknum og hefur slitið öllu samstarfi við Arnar Grant. Skjáskot

Kaupfélag Skagfirðinga hefur ákveðið að hætta framleiðslu á prótíndrykknum Teyg og taka hann úr sölu. Einkaþjálfarinn Arnar Grant þróaði og markaðssetti drykkinn í samstarfi við Kaupfélagið.

Arnar fór í síðustu viku í tímabundið leyfi frá verktakastörfum sínum hjá World Class eftir að Vítalía Lazareva, 24 ára gömul kona, greindi frá ástarsambandi þeirra Arnars, sem er tæplega fimmtugur. Hún sakar vini hans þá um að hafa brotið á sér kynferðislega fyrir framan hann. 

Stundin greinir nú frá því að Kaupfélag Skagfirðinga hafi ákveðið að taka jurtaprótíndrykkinn Teyg úr sölu, hætta framleiðslu hans og slíta öllu samstarfi við Arnar Grant. Arnar þróaði drykkinn fyrir KS ásamt útvarpsmanninum Ívari Guðmundssyni. 

Magnús Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Mjólkursamlags Kaupfélags Skagfirðinga, segir í samtali við Stundina að búið sé að loka Facebook- og Instagram-síðum Teygs. Þá sé verið að tæma hillurnar og hætt að dreifa vörunni. 

„Nú er bara kominn upp algjör forsendubrestur í því samstarfi og við kærum okkur ekkert um að halda því áfram,“ segir Magnús við Stundina. 

Talsvert fjárhagslegt tjón felist í ákvörðun fyrirtækisins en ekki sé búið að ákveða hvort KS muni markaðssetja vöruna undir nýju nafn eða hefja framleiðslu á sambærilegri vöru. 

Frásögn Vítalíu olli miklu fjaðrafoki í síðustu viku en hún sagði sögu sína í hlaðvarpinu Eigin konur á þriðjudag fyrir viku. Greindi hún þar frá upplifun sinni af sumarbústaðarferð í desember 2020 en hún hafði farið í bústaðinn til að hitta Arnar, sem þá var ástmaður hennar. 

Sagði hún að þrír vinir Arnars hafi verið þar, allir yfir fimmtugu, og hafi svo farið að þeir hafi brotið á henni kynferðislega í heitum potti í ferðinni. Mennirnir eru samkvæmt heimildum fréttastofu Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson. 

Ari Edwald, fyrrverandi framkvæmdastjóri Ísey útflutnings fór í tímabundið leyfi á fimmtudag en honum var sagt upp störfum í gær. Hreggviður Jónsson, aðaleigandi Veritas Capital og þáverandi stjórnarformaður, steig úr stjórn félagsins og annarra tengdra fyrirtækja á fimmtudag. Þá sagði Þórður Már af sér sem stjórnarformaður Festi. 

Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson er sömuleiðis farinn í frí frá K100 en Vítalía hefur sakað hann um að hafa gengið inn á sig og Arnar í golfferð í Borgarnesi í haust. Vítalía segir að í kjölfarið hafi Arnar keypt þagmælsku Loga fyrir kynferðislega greiða með henni. Logi hefur neitað að hafa brotið kynferðislega á henni en sagði í Facebook-færslu í síðustu viku að hann hafi farið yfir mörk fólks. 

Ekki náðist í Magnús Frey Jónsson, framkvæmdastjóra Mjólkursamlags Kaupfélags Skagfirðinga, við gerð þessarar fréttar. 


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.