Frábær innkoma Cryths í frábærri endurkomu Dusty

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Dusty-fylkir

Það ríkti mikil gleði og eftirvænting í myndveri Vodafonedeildarinnar í gær þegar deildin fór aftur af stað eftir jólafrí. Nokkrar breytingar hafa orðið á uppskipun liðanna sem nýttu sér leikmannaskiptagluggann til hin ítrasta og má því búast við ferskum vindum á næstunni hjá þeim liðum sem hafa hvað mest stokkað upp hjá sér. Þessu verður gerð nánari skil í uppgjöri þessarar umferðar.

Ein helsta breytingin er þó sú að Dusty hafa fengið til liðs við sig bretann Cryths í stað Midgard og eru þau skipti tilkomin vegna aukinnar áherslu Dusty á keppnir erlendis en þar hafa þeir verið iðnir við kolann undanfarið. 

Fyrri leikur þessara liða fór fram í Vertigo þar sem Dusty vann 16-9 þó Fylki hafi tekist að standa örlítið upp í hárinu á þeim. Í gærkvöldi lá leiðin í Nuke sem verður að teljast áhugavert val vegna þess að þar hafa Fylkir tapað í öll þrjú skiptin sem liðið hefur spilað þar og Dusty hefur einungis einu sinni leikið þar á þessu tímabili. Nuke hefur þó verið nokkuð fyrirferðarmikið í viðureignum Dusty erlendis og þeir því tilbúnir að takast á í kjarnorkuverinu sígilda.

Nýliðinn Cryths stóð sig vel í hnífalotunni og felldi tvo andstæðinga en Fylkir hafði þó betur og kaus að byrja í vörn (Counter-Terrorists). Engar breytingar hafa verið gerðar á liði Fylkis síðkastið og í upphafi leiks var ljóst að það væri svo sem ekki mikil þörf á því heldur. Dusty leitaðist við að ná fellum á útisvæði kortsins en Fylkir, með Zerq í fararbroddi lokaði algjörlega á þær tilraunir. Fylkir komst því í góða stöðu, 5-1, áður en Dusty tók við sér. 

Hér var um að ræða klassíska tilburði hjá Dusty sem við höfum séð oft áður. Þeir voru lengi af stað og planið sem lagt var upp með var ekki að ganga hjá þeim. Þá skiptu þeir einfaldlega um taktík, leituðust við að komast hraðar inn á sprengjusvæði og það gekk eftir. Viðsnúningurinn var algjör og fór Cryths fremstur í flokki til að sækja fellur en Bjarni og aðrir leikmenn Dusty fylgdu því eftir af hörku. Tókst Dusty þannig að komast yfir í síðustu lotu fyrri hálfleiks.

Staða í hálfleik: Dusty 8 - 7 - Fylkir

Fylkir fór rólega af stað í sókninni og gerði tilraun til þess að vinna slagi á útisvæðinu en Dusty hélt uppteknum hætti og slökkti í öllum slíkum atlögum. Dusty sigldi langt fram úr og fór Bjarni á kostum með hverja þrefalda felluna á fætur annarri sem skilaði honum að lokum feitri 30-bombu. Eftir átta sigurlotur Dusty í röð hraðaði Fylkir leik sínum með góðum árangri og klóraði aðeins í bakkann og tók þrjár lotur í röð. Það var þó of seint í rassinn gripið og vann Dusty því örugglega.

Lokastaða: Dusty 16- 11 Fylkir

Sigurganga Dusty virðist því algjörlega óstöðvandi en næst leikur Dusty gegn XY þriðjudaginn 18 janúar. Fylkir tekur svo á móti Vallea þann 21. janúar og sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.