Skoðun

Það keppir enginn í mara­þon­hlaupi með sements­poka á bakinu

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Eitt aðaleinkenni íslensks atvinnulífs og Íslendinga almennt er dugnaður og útsjónarsemi. Í aldanna rás hafa Íslendingar unnið baki brotnu og tekist að byggja upp gott samfélag þar sem fólk hefur það almennt nokkuð gott þó auðvitað séu hér hópar sem hafa verið skildir eftir. Þegar horft er á þróunina frá stríðslokum 1945 þá höfum við í raun farið frá því að vera eitt fátækasta ríki Evrópu í eitt það blómlegasta. Það mál líkja þessum árangri við það að keppa í maraþonhlaupi á HM í frjálsum íþróttum og vera eini keppandinn með sementspoka á bakinu en hafna samt í einu af efstu sætunum. Til að ná slíkum árangri þarf hlauparinn að æfa miklu meira en hinir til að ná þessum árangri, leggja tvöfalt meira á sig. Er ekki kominn tími til að losa okkur við sementspokann og uppskera laun erfiðis okkar? Ég trúi á jöfn tækifæri en þegar sumir þurfa að hlaupa með sementspoka á bakinu er um ójafna keppni að ræða.

Flokkur fólksins hefur nú bent á eina af birtingarmyndum þessa ójafna kapphlaups. Bankarnir skila feitum hagnaði á sama tíma og verð hlutfjár í þeim rýkur upp á tímum djúprar efnahagslægðar. Skilaboðin eru þau að hækka beri bankaskattinn sem sumir halda fram að muni einungis leiða til hækkunar þjónustugjalda og vaxtamunar og þar með þyngja þennan blessaða sementspoka.

Rót vandans liggur í áhættusömum örgjaldmiðli sem kostar almenning tugi milljarða á ári, gjaldmiðli sem hamlar samkeppni, gjaldmiðli sem þrífst ekki nema með höftum.

Viðbrögðin eru samt alltaf þau sömu, að meðhöndla einkennin í stað þess að ráðast að rótum vandans. Á meðan burðumst við með æ þyngri sementspoka á bakinu í lífsgæðakapphlaupinu, úrvinda dugnaðarfólk.

Er þetta ekki bara komið gott? Er ekki bara best að leggja sementspokanum og leyfa okkur að njóta raunverulegs ávinnings dugnaðar okkar og útsjónarsemi með alvöru gjaldmiðli?

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×