Körfubolti

Fjölnir á toppinn eftir öruggan sigur gegn Val

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fjölnir vann öruggan sigur í kvöld.
Fjölnir vann öruggan sigur í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Fjölniskonur lyftu sér á topp Subway-deildar kvenna í körfubolta með 29 stiga sigri gegn Val í kvöld, 99-70.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, en að honun loknum var munurinn aðeins eitt stig. Fjölniskonur voru svo mun sterkari í öðrum leikhluta og fóru með 11 stiga forskot inn í hálfleikshléið, 44-33.

Heimakonur héldu svo áfram að þjarma að Valsliðinu í þriðja leikhluta og voru komnar með 25 stiga forskot fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Lokaleikhlutinn var því aðeins formsatriði fyrir Fjölniskonur sem unnu að lokum öruggan 29 stiga sigur, 99-70.

Dagný Lísa Davíðsdóttir var stigahæsti leikmaður vallarins, en hún skoraði 23 stig fyrir Fjölni, tók sjö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Þá átti Aliyah Daija Mazyck einnig góðan leik fyrir heimakonur þegar hún skoraði 19 stig, tók 14 fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Fjölnir er nú á toppi Subway-deildar kvenna með 18 stig, líkt og Njarðvík sem hefur leikið einum leik minna. Valskonur sitja hins vegar enn í þriðja sæti með 14 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.