Viðskipti innlent

Loftorka átti lægsta boð í Ölfusi og Mosfellsbæ

Kristján Már Unnarsson skrifar
Loftorka breikkaði Vesturlandsveg í Mosfellsbæ í fyrra. Sá kafli er hjá Lágafelli, milli Skarhólabrautar og Langatanga. Sami verktaki átti lægsta boð í framhald verksins, breikkun kaflans milli Langatanga og Reykjavegar.
Loftorka breikkaði Vesturlandsveg í Mosfellsbæ í fyrra. Sá kafli er hjá Lágafelli, milli Skarhólabrautar og Langatanga. Sami verktaki átti lægsta boð í framhald verksins, breikkun kaflans milli Langatanga og Reykjavegar. Arnar Halldórsson

Annir gætu orðið hjá fyrirtækinu Loftorku Reykjavík ehf. við vegagerð næsta árið. Verktakinn átti lægsta boð í tveimur stórum útboðsverkum sem Vegagerðin opnaði fyrir jól.

Fyrra verkið er liður í breikkun Suðurlandsvegar um Ölfus næst Hveragerði. Tilboð voruð opnuð þann 7. desember en verkið felst í lagningu tæplega áttahundruð metra langs tengivegar milli Hveragerðis og Ölfusborga, ásamt smíði nýrrar brúar yfir Varmá. Verkinu skal að fullu lokið 12. september 2022.

Tvö tilboð bárust og hljóðar tilboð Loftorku Reykjavík ehf. í Garðabæ upp á 461,6 milljónir króna. Það reyndist 5 prósentum yfir 438 milljóna króna kostnaðaráætlun. Hærra tilboðið áttu Íslenskir aðalverktakar hf. í Reykjavík, upp á 563 milljónir króna, sem er 28 prósentum yfir áætluðum verktakakostnaði. ÍAV hefur til þessa annast alla breikkun hringvegarins milli Hveragerðis og Selfoss.

Vegarkaflinn sem núna var boðinn út er 800 metra langur tengivegur við austurjaðar Hveragerðis og yfir Varmá.Vegagerðin

Hitt útboðsverkið er endurbygging og breikkun Vesturlandsvegar um Mosfellsbæ á 520 metra kafla milli Langatanga og Reykjavegar, auk lagnavinnu, en tilboðsfrestur rann út þann 21. desember. Þar eru þegar fjórar akreinar en með breikkun eykst umferðaröryggi þegar akstursstefnur verða skildar að með vegriði. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Mosfellsbæjar, Landsnets og Veitna og skal því að fullu lokið 1. nóvember 2022.

Þrjú tilboð bárust og reyndust þau öll yfir áætluðum verktakakostnaði upp á 227 milljónir króna. Boð Loftorku hljóðar upp 257,6 milljónir króna, sem reyndist 13,6 prósentum yfir kostnaðaráætlun. Stéttafélagið ehf. í Reykjavík bauðst til að vinna verkið fyrir 273,5 milljónir króna, sem er 20,6 prósentum yfir áætlun. Hæsta boð átti Óskatak ehf. í Kópavogi, 302 milljónir króna, eða 33 prósentum yfir áætluðum kostnaði verkkaupa.

Þess má geta að Loftorka annaðist sem lægstbjóðandi undanfara þessa verks í Mosfellsbæ, sem var breikkun 1.100 metra vegarkafla meðfram Lágafelli, milli Skarhólabrautar og Langatanga, fyrir 490 milljónir króna. Því verki lauk fyrir síðustu jól.


Tengdar fréttir

Kafli milli Hveragerðis og Ölfusborga boðinn út

Vegagerðin hefur boðið út næsta áfanga í breikkun Suðurlandsvegar um Ölfus, milli Hveragerðis og Selfoss. Útboðið sem núna er auglýst er tæplega áttahundruð metra langur tengivegur við austurjaðar Hveragerðis, ásamt smíði nýrrar brúar yfir Varmá norðan Suðurlandsvegar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×