Körfubolti

Valsmenn og Stólar í sóttkví um jólin og leikjum frestað

Sindri Sverrisson skrifar
Það var heitt í kolunum þegar Valur og KR mættust í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð.
Það var heitt í kolunum þegar Valur og KR mættust í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð. vísir/bára

Körfuboltaaðdáendur þurfa að bíða enn um sinn eftir því að Valur og KR endurnýi kynnin í Subway-deild karla eftir ævintýralega seríu í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð.

Til stóð að liðin myndu mætast á Hlíðarenda annað kvöld en leiknum hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna kórónuveirusmits í herbúðum Vals.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, staðfesti við Vísi að nær allur leikmannahópur liðsins hefði á jóladag verið skikkaður í sóttkví eftir að smit greindist hjá leikmanni sem var með á síðustu æfingu fyrir jól.

Áætlað er að næsti leikur Vals verði gegn Tindastóli 6. janúar. Liðið mætir svo Þór Þorlákshöfn í undanúrslitum VÍS-bikarsins 12. janúar.

Smit hjá Tindastóli og tilfærsla í Keflavík

Svipaða sögu er að segja af Tindastóli sem getur ekki mætt Þór Akureyri á morgun vegna smita í leikmannahópi Sauðkrækinga, að því er fram kemur á vef Þórs.

Þá hafa stórleikir Keflavíkur og Njarðvíkur, í Subway-deild karla og kvenna, verið færðir til um einn dag og verða spilaðir 30. desember. Það er þó ekki vegna kórónuveirusmita.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.