Körfubolti

Martin og félagar misstigu sig í Euro Cup

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia máttu þola 12 stiga tap í kvöld.
Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia máttu þola 12 stiga tap í kvöld. Borja B. Hojas/Getty Images for Hereda San Pablo Burgos

Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia máttu þola 12 stiga tap er liðið tók á móti Cedevita Olimpija í B-riðli Euro Cup í kvöld, 85-97.

Gestirnir í Cedevita tóku forystuna snemma leiks og náðu mest tíu stiga forskoti í fyrsta leikhluta. Martin og félagar náðu þó að minnka muninn og staðan var 22-24 þegar fyrsta leikhluta lauk.

Martin og félagar tóku svo forystuna í öðrum leikhluta, en áfram var jafnræði með liðunum. Þegar flautað var til hálfleiks var smunurinn eitt stig, staðan 44-43, Valencia í vil.

Gestirnir náðu forystunni á ný í þriðja leikhluta og leiddu með sex stigum þegar komið var að lokaleikhlutanum.

Martin og félagar áttu svo fá svör í fjórða leikhlutanum þar sem að gestirnir kláruðu leikinn algjörlega. Þeir náðu mest 15 stiga forskoti og unnu að lokum tólf stiga sigur, 85-97.

Martin skoraði tíu stig fyrir Valencia, tók eitt frákast og gaf þrjár stoðsendingar.

Valencia situr í fimmta sæti B-riðils með fjóra sigra og þrjú töp, en liðið hafði unnið þrjá leiki í röð fyrir leikinn í kvöld. Cedevita Olimija situr hins vegar í áttunda sæti með þrjá sigra og fimm töp, en liðið hafði tapað seinustu fimm leikjum sínum í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×