Körfubolti

Boston Celtics menn réðu ekkert við Joel Embiid í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid var frábær í sigri Philadelphia 76ers á Boston Celtics í Boston.
Joel Embiid var frábær í sigri Philadelphia 76ers á Boston Celtics í Boston. AP/Charles Krupa

Joel Embiid átti frábæran leik í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og það á útivelli á móti Boston Celtics. Tveir leikmenn voru með þrennu í sigrum sinna liða þar af hjálpaði annar þeirra Steph Curry að ná enn einum þrjátíu stiga leiknum sínum

Joel Embiid skoraði 17 af 41 stigi sínu í fjórða leikhlutanum þegar Philadelphia 76ers vann fimm stiga útisigur á Boston Celtics, 108-103. Boston liðið var fimm stigum yfir fyrir lokaleikhlutann en Boston Celtics menn réðu ekkert við Joel Embiid á úrslitastund í þessum leik.

Embiid var einnig með 10 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 varin skot en hann hitti úr 14 af 27 skotum utan af velli og 12 af 14 vítum sínum.

Seth Curry, sem hitti úr öllum þremur þriggja stiga skotum sínum, var næststigahæstur með 26 stig og Tobias Harris skoraði 25 stig. Jaylen Brown skoraði mest fyrir Boston liðið eða 30 stig.

Eldri bróðir Seth, Stephen Curry, skoraði 30 stig í 113-98 sigri Golden State Warriors á Sacramento Kings í fyrsta heimaleik sínum eftir að hann setti þriggja stiga metið sitt í Madison Square Garden í New York. Draymond Green náði sinni 31. þrennu á ferlinum þegar hann var með 16 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar.

Það var önnur þrenna í deildinni í nótt því Dejounte Murray var með þrennu í 116-92 sigri San Antonio Spurs á útivelli á móti Los Angeles Clippers. Murray var með 24 stig, 12 fráköst og 13 stoðsendingar í leiknum. Dejounte Murray náði þarna sinni sjöttu þrennu á tímabilinu og hann bætti með því félagsmet Spurs á einu tímabili sem var áður í eigu þeirra David Robinson (1993-94) og Johnny Moore (1984-85).

Rudy Gobert var síðan með tröllatvennu, 23 stig og 21 frákast, þegar Utag Jazz vann 112-102 útisigur á Charlotte Hornets. Bojan Bogandovic skoraði 23 stig og Donovan Mitchell var með 21 stig. Utah-liðið endaði með þessu tveggja leikja taphrinu.

  • Úrslit í NBA-deildinni í nótt:
  • Boston Celtics - Philadelphia 76ers 103-108
  • Golden State Warriors - Sacramento Kings 113-98
  • LA Clippers - San Antonio Spurs 92-116
  • Chicago Bulls - Houston Rockets 133-118
  • Memphis Grizzlies - Oklahoma City Thunder 99-102
  • Utah Jazz - Charlotte Hornets 112-102
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×