Körfubolti

Ste­ve Kerr leysir Gregg Popo­vich af hólmi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Popovich og Kerr á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Popovich og Kerr á Ólympíuleikunum í Tókýó. Tim Clayton/Corbis via Getty Images

Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors, mun taka við bandaríska landsliðinu í körfubolta. Hans fyrsta markmið verður að tryggja sæti á heimsmeistaramótinu 2023 og Ólympíuleikunum í París ári síðar.

Kerr tekur við af Gregg Popovich sem hefur stýrt liðinu undnafarin ár. Hann stýrði liðinu til sigurs á Ólympíuleikunum í Tókýó síðasta sumar. Hinn 72 ára gamli Popovich lætur engan bilbug á sér finna og er enn þjálfari San Antonio Spurs í NBA-deildinni.

Hinn 56 ára gamli Kerr hefur tekist að snúa gengi Golden State Warriors við eftir að slök undanfarin tvö ár. Eftir að hafa gert liðið að meisturum 2015, 2016 og 2018 þá lentu stórstjörnur liðsins í miklum meiðslum og er Klay Thompson til að mynda ekki enn snúinn aftur.

Warriors hafa hins vegar leikið frábærlega það sem af er leiktíð og eru ásamt Phoenix Suns með bestu tölfræði deildarinnar, 21 sigur og aðeins fjögur töp.

Enn á eftir að staðfesta Kerr sem nýjan þjálfara en allir helstu spekingar NBA-deildarinnar hafa gefið út að hann verði næsti þjálfari. Hann var einn af aðstoðarþjálfurum Popovich á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Talið er að Kerr vilji fá Monty Williams, þjálfara Phoenix Suns, Erik Spoelstra, þjálfara Miami Heat og Mark Few, þjálfara Gonzaga-háskólans sem aðstoðarmenn sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×