Körfubolti

Lakers aftur á sigur­braut, Durant hafði betur gegn Trae og Sólirnar skinu skært í Boston

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Trae Young og Kevin Durant skoruðu báðir 31 stig í nótt.
Trae Young og Kevin Durant skoruðu báðir 31 stig í nótt. Todd Kirkland/Getty Images

Það var nóg um að vera að venju í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar alls fóru fram níu leikir. Los Angeles Lakers sneri aftur á sigurbraut, Kevin Durant hafði getur gegn Trae Young er Brooklyn Nets lagði Atlanta Hawks og þá vann Phoenix Suns stórsigur á Boston Celtics.

Lakers var án Anthony Davis vegna eymsla í hné. Það kom ekki að sök þar sem Oklahoma City Thunder er með slakari liðum deildarinnar í ár.

Að því sögðu kom einn af átta sigurleikjum OKC á leiktíðinni gegn Lakers þann 5. nóvember svo LeBron James og félagar gátu ekki leyft sér að vera kæruleysir í leik næturinnar.

Leikurinn var hins vegar aldrei spennandi, Lakers var með 14 stiga forystu að loknum fyrsta leikhluta og 19 stiga forystu í hálfleik. Munurinn var svo kominn upp í 21 stig er leiktíminn rann út, lokatölur 116-95 Lakers í vil.

LeBron skoraði 33 stig og var stigahæstur hjá Lakers. Þá gaf hann sex stoðsendingar og tók fimm fráköst. Þar á eftir kom Avery Bradley með 22 stig. Hjá OKC var Tre Mann stigahæstur með 19 stig.

Brooklyn Nets vann átta stiga sigur á Atlanta Hawks, lokatölur þar 113-105. Leikurinn var mjög jafn framan af en Atlanta gat vart skorað körfu til að bjarga lífi sínu í fjórða leikhluta. Liðið skoraði aðeins 14 stig gegn 24 hjá Nets og því fór sem fór.

Kevin Durant var stigahæstur í liði Nets með 31 stig ásamt því að gefa sex stoðsendingar og taka fimm fráköst. James Harden kom þar á eftir með 20 stig, 11 stoðsendingar og fimm fráköst.

Hjá Hawks var Trae Young einnig með 31 stig, 10 stoðsendingar og sjö fráköst. John Collins kom þar á eftir með 20 stig.

Leikmenn Phoenix Suns mættu til Boston fullt sjálfstrausts enda aðeins tapað fjórum leikjum á leiktíðinni. Skipti engu máli þó Devin Booker, stórstjarna liðsins, væri ekki með. Leikar voru nokkuð jafnir í fyrsta leikhluta en í öðrum sýndu Sólirnar frá Phoenix mátt sinn og megin.

Gestirnir skoruðu þá 32 stig gegn aðeins 15 hjá Boston og lagði það grunninn að sigri liðsins, lokatölur 111-90 Suns í vil.

Alls skoruðu sjö leikmenn Suns 10 stig eða meira. Stigahæstur var þó JaVale McGee með 21 stig ásamt því að taka 15 fráköst. Þar á eftir kom Cameron Payne með 17 stig á meðan Jae Crowder og Cameron Johnson skoruðu 16 stig hvor. Hjá Celtics var Jayson Tatum með 24 stig.

Í öðrum leikjum var það helst að Giannis Antetokounmpo skoraði 41 stig og tók 17 fráköst í 123-114 sigri meistara Milwaukee Bucks á Houston Rockets. 

Gary Trent Junior skorði 24 stig þegar Toronto Raptors unnu nauman sigur á New York Knicks, lokatölur 90-87. Þá dugðu 27 stig Luka Dončić skammt er Dallas Mavericks tapaði gegn Indiana Pacers, lokatölur 106-93 Pacers í vil.

Staðan í deildinni er þannig að í Austurdeildinni eru Nets á toppnum með 18 sigra og 8 töp. Chicago Bulls koma þar á eftir með 17 sigra og níu töp. Meistararnir í Bucks eru svo í 3. sæti með 17 sigra og 10 töp.

Í Vestrinu eru Golden State Warriors og Suns á toppnum með 21 sigur og fjögur töp. Utah Jazz koma þar á eftir með 18 sigra og sjö töp.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×