Skoðun

Sjálf­boða­liða­störf er­lendis

Karen Miller skrifar

Það getur verið ógnvekjandi að flytja til útlanda, jafnvel þótt þú sért að flytja til nálægs lands sem svipar til heimalandsins. Þegar þú flytur til annars lands skilurðu eftir hefðir þínar og venjur og þarft að aðlagast nýju umhverfi. Brottflutningurinn þýðir líka að þú þarft að kveðja vini þína, allavega um stundarsakir, og eignast nýja. Það getur verið flókið að tilkynna fjölskyldunni að þig langi að flytja út og þú gætir mætt misskilningi og fjölmörgum spurningum eins og „af hverju?“. Þegar allt kemur til alls, af hverju ættirðu að taka þessa ákvörðun?

Auðvitað getur verið erfitt að fara inn í nýjar aðstæður, en það er líka áskorun og hvatning til að stíga út fyrir þægindarammann. Sjálfboðaliðastörf veita þér tækifæri til þess og miklu meira. Sama hver staða þín er í dag – hvort sem þú ert nemi sem vilt taka hlé frá námi, ævintýrasækinn starfsmaður úr atvinnulífinu sem vill breyta til, atvinnulaus einstaklingur sem langar að dýpka þekkingu á nýjum sviðum – þá gefa sjálfboðaliðastörf þér færi á að vinna að fullu að verkefni sem þú hefur ástríðu fyrir. Þú sinnir sjálfboðaliðastörfum innan samtaka sem taka á móti þér, gefur þeim tímann þinn og aðstoð meðan þú aflar þér nýrrar þekkingar og færni.

Tíminn þinn sem sjálfboðaliði snýst ekki bara um sjálfboðaliðastörfin sjálf. Þú færð líka frítíma sem gefur þér færi á að ferðast og kynnast landinu sem þú fluttir til, upplifa nýja hluti og verja tíma með nýjum vinum. Þú munt kynnast fólki alls staðar að úr heiminum sem hefur allt aðra reynslu en þú, en fólk sem er að upplifa svipaða hluti tengist oft vinaböndum ansi hratt!

Ástæða þess að þú gerist sjálfboðaliði er fyrst og fremst persónuleg. Hvort sem ástæðan er starfsreynsla, áhugi á ákveðnu landi, þörf á hvíld frá daglegu lífi o.s.frv., þá hefur hver og einn sína ástæðu og hvata. Ef þig langar út en mætir skilningsleysi frá fólki í kringum þig ættirðu aðallega að hlýða á þínar eigin þarfir.

Ég einsetti mér að gera það. Ég var örugg um mína ákvörðun en samt fékk ég bakþanka áður en ég fór frá heimalandi mínu, Frakklandi. Í dag sé ég ekki eftir neinu. Ég hef verið á Íslandi í nærri tvo mánuði, svo ævintýrið mitt er rétt að byrja. Þrátt fyrir það er ég strax byrjuð að þroskast sem einstaklingur og þakka ég sjálfboðaliðastörfunum fyrir það. Þegar ég hóf þetta ævintýri voru markmið mín að læra nýja hluti og dýpka þekkingu mína á mínu fagi á meðan ég ferðaðist um og skoðaði þetta einstaka land sem mig hefur lengi langað að kynnast. Þau markmið hafa gengið eftir. Ég upplifi og kynnist Íslandi, læri nýtt tungumál, vinn í alþjóðlegu umhverfi og bý með fólki frá mismunandi löndum sem mér finnst ég græða mikið á. Og þetta er bara byrjunin á íslenska ævintýrinu mínu – það bíða mín áskoranir og frekari lærdómur, langar bílferðir um þetta fallega land og alþjóðlegir kvöldverðir með vinum mínum!

Höfundur er sjálfboðaliði European Solidarity Corps samstarfsáætlunar ESB, á skrifstofu Alþjóðlegra ungmennaskipta (AUS), í tilefni af alþjóðlega sjálfboðaliðadeginum 5. desember 2021.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×