Handbolti

Heimsmeistararnir björguðu sér fyrir horn

Sindri Sverrisson skrifar
Bo van Wetering skoraði sex mörk fyrir Holland í dag.
Bo van Wetering skoraði sex mörk fyrir Holland í dag. Getty/Henk Seppen

Heimsmeistarar Hollands sluppu heldur betur með skrekkinn þegar liðið vann Rúmeníu, 31-30, á HM í handbolta kvenna á Spáni. Rúmenar gerðu slæm mistök á lokamínútunni.

Holland komst sex mörkum yfir í leiknum en Rúmeníu tókst að vinna sig inn í leikinn og jafna metin.

Angela Malestein kom Hollandi svo yfir með skoti í stöng og inn þegar tæp mínúta var eftir. Rúmenar fengu gott færi til að jafna metin en Tess Wester varði frá Lauru Moisa.

Þá var enn hálf mínúta eftir en engin í rúmenska liðinu virtist átta sig á því og liðið bakkaði allt að eigin vítateig. Holland gat því spilað boltanum rólega á milli sín og eytt tímanum, áður en liðið tók svo leikhlé þegar átta sekúndur voru eftir. Þá fyrst virtust þjálfari og leikmenn Rúmena átta sig á stöðunni en það var of seint og leiktíminn rann út.

Þetta var fyrsti leikurinn í milliriðli 2 þar sem Holland er nú með 5 stig en Rúmenía 2. Noregur, sem mætir Púertó Ríkó á eftir, er með 4 stig og Svíþjóð, sem mætir Kasakstan í kvöld, er með 3 stig. Púertó Ríkó og Kasakstan eru án stiga.

Jafnt hjá Rússum og Slóvenum

Milliriðill 1 hófst einnig á háspennuleik sem lauk með 26-26 jafntefli Rússlands og Slóveníu. Júlía Markova skoraði jöfnunarmark fyrir Rússa þegar fimm sekúndur voru eftir.

Rússar eru því efstir í milliriðli 1 með 5 stig en Slóvenía er með 3 stig. Frakkland er með 4 stig, Serbía 2 og Pólland og Svartfjallaland án stiga. Í dag mætast Svartfjallaland og Serbía, og Frakkland og Pólland.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.