Skoðun

144 ein­staklingar, yngri en 67 ára, búa á elli­heimilum

Bergþóra Bergsdóttir skrifar

Vinkona mín og samherji í MS, Margrét Sigríður Guðmundsdóttir, er enn að berjast við óréttlátt kerfi fyrir sig og aðra í sömu stöðu. Ég leyfði ykkur, vinum mínum, að fylgjast með baráttu hennar fyrir stað sem hún gæti kallað heimili sitt fyrir einum til tveimur árum en hún endaði með að fá vist á meðalstóru elliheimili, verandi eini íbúinn sem ekki er með gráan koll og heyrnaskerðingu. Ágætlega var tekið á móti henni en nú er búið að vera að reita af henni fjaðrirnar með skerðingu þjónustu, sem henni er þó svo nauðsynleg til að halda heilsu. Vinkona mín er ekki veik, hún þarf bara á þjónustu að halda við athafnir daglegs lífs.

En komið með mér í smá hugarflug....

Ímyndið ykkur ef þið þyrftuð að sitja sem fastast í sama stólnum 14 tíma á dag, alla 7 daga vikunnar, árið um kring, án þess að fá að teygja úr ykkur í eitt einasta skipti, - ekki einu sinni þegar ykkur væri lyft í rúmið. Þar lægjuð þið hreyfingarlaus í 10 tíma, og aftur, en nú liggjandi, án þess að fá að teygja úr ykkur í eitt einasta skipti. Jólin koma þó tvisvar í viku þegar þið fáið teygjur í 30 – 40 mínútur að morgni dags áður en setan hefst að nýju.

Að nýta sér æfingahjól á staðnum til að fá einhverja hreyfingu á blóðrás líkamans er aðeins í boði einu sinni í viku. Ef þú einhverra hluta vegna getur ekki nýtt þennan tímaglugga, - ja, æ sorry, ekkert i boði fyrir þig núna, prófaðu að koma aftur í næstu viku....

COMPUTER SAYS NO!

Og nei, Margrét má ekki fá sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun eða aðra endurhæfingu hjá þjálfara út í bæ. Ríkið segir NEI, heimilið segir NEI, COMPUTER SAYS NO! Sömu reglur eiga að gilda um ungan fatlaðan einstakling með áratuga líf framundan sem þarf nauðsynlega á endurhæfingu að halda, ef ekki á að fara verr, og einstakling sem kominn er að leiðarenda. Meðal dvalartími á hjúkrunarheimili er 2,7 ár.

Herbergi Margrétar, svo smekklegt sem það er, er svo fullt af nauðsynlegum hjálpartækum og því sem þarf til daglegs lífs, að forfæra þarf rúmið til hún komist í það og úr. Til að komast á salerni eða í sturtu þarf fyrst að tæma baðherbergið, sem óhjákvæmilega þegar lítið pláss er, er líka geymsla. Og já, sturta er aðeins í boði vikulega! Fyrir ykkur sem ekki þekkið til – fólk sitjandi í hjólastólum svitnar líka!

Að hitta vini, fara í leikhús eða eitthvað annað á kvöldin.... það er ekki bara alveg sjálfsagt eins og hjá okkur flestum. Ég tala nú ekki um, að hafa lítið val um það hvort hlustað sé á útvarpsmessuna á sunnudagsmorgnum þegar maður vill frekar hugleiða í friði og ró inni á herberginu sínu. Útvarpið glymur frammi.

En þetta er raunveruleiki Margrétar og meira til

Finnst ykkur þetta mannsæmandi líf sem má þakka fyrir eða getið þið ekki hugsað ykkur að neinn lifi við þessar aðstæður svo áratugum skiptir?

Athugið að engum kemur til hugar að lenda ungur á elliheimili vegna veikinda eða slysa en það raungerðist þó fyrir 144 núverandi unga íbúa elliheimila landsins. Enginn veit hver getur verið næstur – við sjálf, ættingi eða vinur.

Stjórnvöld verða að vakna

Afhverju búa 144 einstaklingar, yngri en 67 ára, á hjúkrunarheimilum, réttara sagt elliheimilum, þar sem meðalaldur íbúa er nú 85 ár og fer hækkandi? 144 ungir í rýmum á víð og dreif um landið sem ætluð eru eldri borgurum, rýmum sem jafnast á við öll rýmin á Droplaugastöðum og á Sunnuhlíð í Kópavogi.

Væri ekki frekar ráð að koma þessum 144 einstaklingum í húsnæði sem hentar fötluðum, í samræmi við lög og reglugerðir þar um, og leyfa eldri borgurum, sem búa nú á göngum og á dýrum plássum LSH, að komast í herbergi á hjúkrunarheimili til að eyða þar síðustu árum ævi sinnar í góðum félagsskap jafnaldra sinna og njóta þjónustu og aðhlynningar frábærs starfsfólks skv. markmiðum um öldrunarþjónustu.

Það er úrelt að velta þeirri hugmynd upp

að ásættanlegt sé að koma upp sérstökum deildum fyrir yngri innan hjúkrunarheimila. Þessir hópar, ungir fatlaðir og heldri borgarar á elliheimili passa engan veginn saman við þessar aðstæður. Stjórnvöld verða að fylgja nútimanum. Út af elliheimilum og inn á búsetukjarna við hæfi fyrir þá yngri og út með heldri af LSH og inn á hjúkrunarheimili.

Ég tek það fram hjúkrunarheimili Margrétar er ekki einsdæmi. Forsvarsmenn heimilanna hafa lengi reynt að vekja athygli stjórnvalda á vandamálum tengdum „útlögum“, eins og yngri en 67 eru kallaðir í opinberum skýrslum, en stjórnvöld þverskallast við. En nú er lag. Nýr ráðherra sem vonandi vill láta til sín taka og kosningar til sveitarstjórna á næsta ári. Þá höfum við val um hvernig samfélag við viljum búa þeim sem minna mega sín.

Takk þeim er lásu.

Höfundur er einstaklingur með MS. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×