Innherji

Fossar markaðir að verða fjárfestingabanki

Hörður Ægisson skrifar
Haraldur I. Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.
Haraldur I. Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.

Íslenska verðbréfafyrirtækið Fossar markaðir eru að færa út kvíarnar í starfsemi sinni og stefna nú að því að verða fjárfestingabanki. Samkvæmt heimildum Innherja skilaði félagið þannig nýlega inn umsókn til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands þar sem óskað var eftir því að fá starfsleyfi sem fjárfestingabanki.

Gangi áætlanir Fossa markaða eftir, sem hafa verið á meðal leiðandi verðbréfafyrirtækja frá því að það hóf starfsemi árið 2015, verður félagið þá fimmti bankinn sem er starfræktur hér á landi en aðrir bankar – Arion, Íslandsbanki, Landsbankinn og Kvika – eru hins vegar allir með starfsleyfi sem viðskiptabankar.

Í samtali við Innherja sögðust stjórnendur Fossa ekki vilja tjá sig um málið.

Stærstu hluthafar félagsins eru hjónin Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson, stjórnarformaður Fossa, Haraldur I. Þórðarson, forstjóri, og Steingrímur Arnar Finnsson, framkvæmdastjóri Markaða.

Með því að breyta rekstrarformi Fossa, sem er í dag með starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki, fyrirtækjaráðgjöf og eins á sviði eignastýringar, í fjárfestingabanka fær félagið mun víðtækari starfsheimildir en áður. Heimildirnar eru í megindráttum þær hinar sömu og ná til starfsemi viðskiptabanka að því undanskildu að Fossum verður ekki heimilt að taka á móti innlánum.

Sem fjárfestingabanki munu Fossar þannig meðal annars geta gefið út víxla eða skuldabréf, átt viðskipti fyrir eigin reikning og þá verður þeim eins heimilt að stunda lánastarfsemi. Ljóst er að með þessu skrefi sjá stjórnendur félagsins, svo dæmi sé tekið, tækifæri í því að auka við þjónustu viðskiptavina sinna á sviði markaðsviðskipta með framvirkum samningum vegna viðskipta með verðbréf.

Þá geta Fossar, fái þeir starfsleyfi sem fjárfestingabanki, jafnframt bæst við í hóp aðalmiðlara með ríkisverðbréf og viðskiptavakt þeirra á eftirmarkaði. Aðalmiðlurum með ríkisverðbréf er boðið upp á endurhverf viðskipti hjá Seðlabankanum.

Eitt af skilyrðum þess að fá fjárfestingabankaleyfi er að vera með að lágmarki 5 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 730 milljónir íslenskra króna, í eigið fé. Ekki er víst að félagið muni hins vegar þurfa að fara í hlutafjáraukningu til að uppfylla þá kröfu. Í árslok 2020 nam eigið fé Fossa um 400 milljónum en ljóst er að góður gangur hefur verið í starfseminni á þessu ári og því allt útlit fyrir að eigið fé félagsins sé nú orðið meira en sem nemur þeirri lágmarkskröfu sem gert er til fjárfestingabanka.

Eignastýringarstarfsemi Fossa markaða er til húsa í Næpunni, á Skálholtsstíg 7, steinsnar frá höfuðstöðvum Fossa við Fríkirkjuveg.

Fossar markaðir hafa verið að auka talsvert umsvif sín á síðustu misserum. Fyrr á þessu ári kom félagið á fót eignastýringarsviði og þá stóðu Fossar einnig að stofnun sjóðastýringarfyrirtækisins Glyms eignastýring, ásamt Guðmundi Björnssyni sem er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins, en það mun leggja áherslu á sérhæfðar fjárfestingar auk sérvalinna fjárfestinga fyrir fagfjárfesta. 

Þá hefur starfsmönnum Fossa fjölgað talsvert á árinu en nú síðast, samkvæmt heimildum Innherja, var Róbert Grönqvist ráðinn til Fossa markaða frá Íslandsbanka og mun hann fara fyrir áhættustýringu félagsins.

Fossar markaðir, sem hafa meðal annars verið leiðandi í að hafa milligöngu um viðskipti erlendra fjárfestingasjóða í skráðum félögum á Íslandi, eru það sem af er þessu ári með mestu hlutdeildina í viðskiptum með hlutabréf í Kauphöllinni og nemur hún rúmlega 21 prósent. Þá er félagið sömuleiðis með einna mestu hlutdeildina í viðskiptum skuldabréf en á fyrstu ellefu mánuðum ársins nam hún tæplega 17 prósent.

Á síðasta ári námu þóknanir og aðrar tekjur Fossa samtals ríflega 900 milljónum króna og minnkuðu lítillega á milli ára. Hagnaður félagsins var 177 milljónir króna eftir skatt borið saman við 310 milljónir árið áður.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×