„Við náðum að halda eitt stórt partí í Covid-hléi í september og sáum að um leið og það kom tónlist með indverskum eða arabískum blæ þá flykktust fleiri á gólfið. Þessi fjölmenning er því farin að færa skemmtilega fjölþjóðlegan blæ á samkomurnar okkar,“ segir Sigríður Elín Guðlaugsdóttir, alltaf kölluð Ella Sigga, framkvæmdastjóri Mannauðs hjá Alvotech.
Í dag fjallar Atvinnulífið um það hvernig ráðningar starfsfólks erlendis frá getur verið liður í því að fjölga framtíðarstörfum á Íslandi.
En einnig hvernig fjölmenning vinnustaða getur gefið af sér á margvíslegan hátt.
Ráðningar erlendis frá fjölga framtíðarstörfum
Á þessu ári hefur Alvotech ráðið 220 starfsmenn, þar af um 80 starfsmenn sem ráðnir hafa verið erlendis frá.
Af þeim starfsmönnum sem ráðnir voru erlendis frá, eru um 75 manns frá Indlandi.
Flest fjölskyldufólk.

Ella Sigga segir að ýmsu að huga þegar fyrirtæki ráða starfsfólk erlendis frá.
Fólk þurfi að fá stuðning í flutningum og í því að aðlagast íslensku samfélagi.
Hjá Alvotech sé auk þess öllum boðið tungumálanámskeið, bæði á íslensku og ensku.
Þá þarf að aðstoða fólk við að fá atvinnuleyfi, dvalarleyfi, húsnæði, leikskólapláss og jafnvel innflutning á gæludýrum.
Margt fylgi því líka að læra inn í daglegt líf á Íslandi. Ella Sigga nefnir sem dæmi aðstoð við framtalsskil eða hreinlega að skilja bréf sem berast frá bankanum eða stofnunum.
Fyrst og fremst er markmið þessara ráðninga að auka þekkingu á Íslandi og byggja þannig upp nýja atvinnugrein og fleiri framtíðarstörf hér.
Við höfum náð til okkar öflugum einstaklingum með mikilvæga sérþekkingu sem svo hjálpa okkur að byggja upp þekkingu og þjálfa og þróa starfsmenn Alvotech.“
Að þjálfa og þróa framtíðarstarfsfólk þýðir líka að horfa þurfi til réttu hópanna.
Sem dæmi nefnir Ella Sigga að hjá Alvotech sé menntunarstig starfsmanna Alvotech mjög hátt: Um 60% starfsfólks er með meistara- eða doktorsgráðu en um 22% eru með grunngráðu úr háskóla eins og B.Sc. eða BA.
Alvotech hefur því boðið upp á launaða starfsþjálfun.
„Við erum í náinni samvinnu við Háskóla Íslands og erum að bjóða launaða starfsþjálfun fyrir aðila sem nýlokið hafa raungreinanámi á borð við líffræði, efnafræði og lyfjafræði,“ segir Ella Sigga.
Framundan er einnig spennandi starfsþjálfun fyrir fólk sem ekki hefur lokið háskólanámi.
„Um er að ræða sex mánaða launaða starfsþjálfun til að undirbúa einstaklinga fyrir framtíðarstörf við framleiðslu líftæknilyfja,“ segir Ella Sigga en bætir því við að möguleikinn á þessari tegund starfsþjálfunar væri ekki fyrir hendi nema fyrir það að til fyrirtækisins hafa verið ráðnir erlendir sérfræðingar „sem hafa flutt yfir hálfan hnöttinn til að búa á Íslandi og byggja upp Alvotech með okkur.“
Þá segir Ella Sigga fyrirtækið á stórum tímamótum og því sé enn frekari fjölgun starfsfólks fyrirséð.
„Fyrirtækið stendur á mjög spennandi tímamótum því eftir tíu ára þróunarvinnu er fyrsta varan að fara á markað á næstu misserum.Um 550 starfsmenn eru á starfsstöð Alvotech hér í Vatnsmýri sem er í raun orðin of lítil og við erum að byggja við 15.200 fermetra byggingu sem skotgengur. Markmiðið er að hún verði tilbúin í lok árs 2022,“ segir Ella Sigga.

Við lærum hvort af öðru
„Það er einstaklega gefandi að vinna í fjölmenningarlegu umhverfi. Við lærum hvort af öðru og sjóndeildarhringurinn stækkar,“ segir Ella Sigga.
Sem dæmi um skemmtilega stemningu nefnir hún krikket sem tengja má við þann hóp sem fluttist hingað frá Indlandi, þótt krikket sé vinsælt víðar.
„Nú eru skemmtilegir viðburðir í kringum krikketleiki. Fjölskyldur koma saman og verja deginum með liðsmönnum og starfsfólk haft gaman að því að kynnast nýrri íþrótt.“
Þá segir Ella Sigga ýmsa viðburði taka mið af því fjölmenningarlega umhverfi sem vinnustaðurinn er.
„Við erum til dæmis með menningardag, eða Culture Day, þar sem við kynnumst og fögnum mismunandi menningu og hefðum,“ segir Ella Sigga.
Fjölmenningin endurspeglast líka í mötuneytinu.
„Þar er boðið upp á grænmetis- og vegan rétti og síðan höldum við sérstaklega upp á stærri hátíðardaga eins og Þakkargjörðardaginn eða Dívalí sem er stór indversk hátíð.“
Þá er til staðar sérstakt tilbeiðsluherbergi í kjallara Alvotech.
Ella Sigga minnir líka á að glöggt er gests augað.
Það er líka mjög gefandi að sjá Ísland með augum þeirra sem hingað flytja. Veðrið er ekki svo slæmt, það er stutt í ósnortna náttúru, pláss fyrir alla og kannski alls ekkert svo alvarlegt að vera hálftíma á leið í vinnuna.“

Flytja íslenska jafnréttishugsun til útlanda
Að byggja upp fjölmenningu innan fyrirtækis skilar sér þó einnig í áhrifum frá Íslandi og til útlanda.
Sem dæmi má nefna jafnréttismálin.
Við fengum Jafnlaunavottunvið fyrir um ári síðan og þó svo að vottunin sjálf taki aðeins til Íslands þá byggjum við á sömu ferlum á öllum starfsstöðvum, gerum jafnlaunagreiningar og setjum okkur jafnlaunamarkmið alls staðar.
Svo það má að einhverju leiti segja að við séum að flytja út íslenska jafnréttishugsun og vinnubrögð.“
Alls starfa um 720 manns hjá Alvotech á fjórum starfsstöðvum alls frá sextíu þjóðernum.
Kynjahlutföll starfsmanna er nokkurnvegin jafnt karlar og konur.
Ella Sigga segir þó að ekki sé nóg að horfa til kynjahlutfalls sem meðaltal af heildarfjölda.
Raunverulega áskorunin felist í að tryggja fjölbreytileikann með því að setja sér markmið um jöfn kynjahlutföll innan allra hópa og deilda, en þetta er mikilvæg áhersla hjá Alvotech.
Almennt segist Ella Sigga trúa því að fjölbreytileikinn sé allra hagur.
„Það felast mikil verðmæti í fjölbreytileika og ég er þeirrar skoðunar að fjölbreyttir hópar leiði til betri niðurstöðu og þannig verða tveir plús tveir = fimm. Þetta á við um þjóðerni, aldur, kynferði eða annað. Við hvetjum til samvinnu og ég trúi því að vinnustaðamenning verði aldrei betri en versta hegðun sem við umberum og hvernig við komum fram við hvort annað.“